Bankastjóri og stjórnarformaður Arion banka segja að íþyngjandi regluverk sé farið að hafa neikvæð áhrif á alþjóðlegt samkeppnishæfi íslenskra banka og í leiðinni á íslenska skattgreiðendur.

„Íslandsálagið svokallaða sýnir svo að ekki verður um villst að það er ekki jafnræðisgrundvöllur milli íslensku bankanna og erlendra keppinauta þeirra,“ segir Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion baka, í viðtali við hann og Paul Horner, stjórnarformann bankans, í nýrri ársskýrslu Arion.

„Íslensku bankarnir eru smáir í sniðum en sæta sömu eða meiri kröfum auk hærri skattlagningar. Og þar sem þeir eru minni að stærð er dýrara fyrir þá að aðlagast nýjum reglum.“

Kosti of mikið að vera með þrjá kerfislega mikilvæga banka

Ársskýrslan er birt fimm dögum eftir stjórn Arion sendi frá sér tilkynningu, þar sem stjórn bankans lýsir yfir áhuga á samrunaviðræðum við Íslandsbanka. Þar segir bankinn að það sé staðreynd að kostnaður fjármálakerfisins sé hlutfallslega hár hér á landi í alþjóðlegum samanburði.

Það sé bæði vegna smæðar íslenska hagkerfisins og þeirrar staðreyndar að þrír stærstu bankar landsins eru allir flokkaðir sem kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki samkvæmt evrópskri löggjöf. Þeir þurfa að uppfylla flókið og umfangsmikið regluverk Evrópusambandsins, sem sé samið með miklu stærri fjármálafyrirtæki í huga, auk séríslenskra reglna.

Benedikt sagði jafnframt í aðsendri grein á Vísi um helgina að honum vitanlega séu engar aðrar smáar þjóðir sem starfrækja þrjá kerfislega mikilvæga banka sem nær einvörðungu starfi á innanlandsmarkaði.

„Það kostar einfaldlega of mikið,“ skrifar Benedikt og bætir við að sá kostnaður felist ekki einungis í kostnaði bankanna sjálfra heldur einnig kostnað við umfangsmikið eftirlit með kerfislega mikilvægum bönkum.

Hlutfallslegur kostnaður mun hærri en í Evrópu

Paul, sem tók við stjórnarformennsku Arion síðasta vor, segir í viðtalinu í ársskýrslu bankans að fyrir „lítinn banka eins og Arion“, og bætir við að Arion sé sannarlega einn minnsti kerfislega mikilvægi banki Evrópu, sé hlutfallslegur kostnaður við reglufylgni mun hærri en fyrir stærri evrópskar fjármálastofnanir.

„Ef ég fengi sjálfur að ráða þá myndi ég frekar nota skarpasta hugvitið hér innanhúss til að þróa nýjar vörur, til dæmis vörur sem efla rekstur lítilla og meðalstórra fyrirtækja eða stuðla að fjárhagslegu heilbrigði viðskiptavina, frekar en að það fari í umfangsmikla og stöðuga framleiðslu skýrslna fyrir eftirlitsstofnanir, svo dæmi sé tekið,“ segir Horner.

„Skýrt regluverk og eftirlit er mikilvægt fyrir öll fjármálakerfi og við leggjum okkur fram um að sinna því vel en að hér á landi sé gengið lengra en í nágrannalöndum okkar er hvorki jákvætt fyrir neytendur hér á landi né samkeppnishæfni Íslands.“

Hefur áhrif á atvinnulífið

Benedikt telur að í þessu samhengi mætti löggjafinn og stjórnmálafólk endurskoða ýmislegt í þessum efnum enda varði þetta samkeppnisstöðu Íslands.

„Við erum í mikilli samkeppni í fjölmörgum atvinnugreinum á alþjóðavísu. Jafnvel ferðaþjónustan keppir við ferðaþjónustu annars staðar í heiminum. Og erlend ferðaþjónustufyrirtæki njóta oft mun hagstæðari skilyrða en okkar fólk í þeim geira hér á landi.“

Í viðtalinu nefnir Benedikt einnig að „við séum að upplifa mikla umrótatíma í fjármálaþjónustu rétt eins og í mörgum öðrum geirum“. Gervigreind sé t.d. þegar tekin að setja sterkan svip á fjármálaheiminn.

Sjá megi fyrir sér að tekjumódel banka- og fjármálastofnana breytist umtalsvert í framtíðinni og muni mögulega fela í sér aukið samstarf við tæknifyrirtæki og svokölluð ofuröpp eins og hið kínverska WeChat hefur verið byggt upp. Sú þróun sé í raun nú þegar hafin.

„Það verður að minnsta kosti spennandi að sjá hvað gerist á næstu árum, svo mikið er víst. Við hjá Arion ætlum okkur að vera í fararbroddi og hlökkum til nýrra áskorana. Við lifum á spennandi tímum.“