Starfsmenn Starbucks í Suður-Kóreu hafa neyðst til að hætta að segja nokkur nöfn sem kölluð eru þegar pantanir viðskiptavina eru tilbúnar. Á vef BBC segir að um sé að ræða sex nöfn þeirra sem eru að bjóða sig fram í komandi forsetakosningum.

Fyrirtækið segir að það þurfi að viðhalda pólitísku hlutleysi á kosningatímabilinu en segir að banninu verði aflétt eftir kosningarnar þann 3. júní nk.

Suðurkóresk fyrirtæki og frægir einstaklingar í landinu leitast yfirleitt við að vera hlutlaus þegar kemur að stjórnmálum en pólitískur órói hefur færst í aukana í landinu vegna fyrrum forseta Suður-Kóreu, Yoon Suk Yeol.

Yoon var leystur úr embætti af stjórnlagadómstól landsins í síðasta mánuði fyrir að hafa brotið gegn stjórnarskránni með yfirlýsingu herlaga í desember.

Forsetinn sagðist hafa sett herlögin á til að vernda landið frá kommúnískum áhrifum frá Norður-Kóreu en lét svo herinn loka þinghúsinu til að koma í veg fyrir að þingmenn gætu kosið um afnám herlaganna.

Hversdagslegir hlutir í Suður-Kóreu hafa nú breyst í pólitískan vígvöll en undanfarna mánuði hefur fjöldi viðskiptavina hjá Starbucks pantað drykki í gegnum smáforrit fyrirtækisins og skrifað hluti eins og „handtökum Yoon Suk Yeol“ eða „Lee Jae-myung er njósnari“ í stað þess að skrifa sitt raunverulega nafn.

Starfsmenn Starbucks hafa þá haft lítið val annað en að hrópa þessi „nöfn“ þegar drykkir viðskiptavina eru tilbúnir til afhendingar. Starbucks segir hins vegar að það vilji að allir viðskiptavinir fái frábæra upplifun á kaffihúsum sínum.