Franska hljóðtæknifyrirtækið L-Acoustics og íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Treble Technologies tilkynntu í dag um stefnumótandi samstarf sitt.

L-Acoustics er stærsti hljóðkerfaframleiðandi heims. Hljóðkerfi L-Acoustics má finna á flestum tónleikahátíðum veraldar og í meira en 13.000 tónleikastöðum, leikhúsum, íþróttavettvöngum, fyrirlestrasölum, hótelum og veitingastöðum um allan heim, að því er segir í tilkynningu.

L-Acoustics tók þátt í 1,7 milljarða króna A-fjármögnunarlotunni hjá Treble síðastliðið sumar.

Félögin segja að með samstarfinu sameinist sérþekking L-Acoustics á hljóðkerfum og hljóðhermunartækni Treble með það að markmiði að bæta hönnun og útfærslu hljóðkerfa.

Hugbúnaðartól L-Acoustics, sem hljóðkerfahönnuðir, sýningarhönnuðir og hljóðverkfræðingar nota, munu vera keyrð áfram af hermunartækni Treble.

„Notkun hermunar og stafræn hönnun eru að umbylta greininni. Við í Treble erum stolt af því að vera komin í samstarf við þetta einstaka og magnaða fyrirtæki sem L-Acoustics er, og hlökkum til að vinna með þeim og styðja viðskiptavini beggja fyrirtækja við að skapa betri hljóðupplifanir um allan heim,“ segir Finnur Pind, forstjóri og stofnandi Treble.

„Samstarfið við Treble styður við markmið okkar að skapa einstakar hljóðupplifanir,“ er haft eftir Guillaume Le Nost, framkvæmdastjóra rannsóknar og þróunar hjá L-Acoustics. „Með því að sameina sérþekkingu okkar á hljóðkerfum og háþróaðri hermunartækni Treble getum við hjálpað viðskiptavinum okkar að hámarka hljóðgæði á skilvirkari hátt."

Gefa út sína stærstu hugbúnaðaruppfærslu frá upphafi

Síðar í vikunni mun Treble gefa út sína stærstu hugbúnaðaruppfærslu frá upphafi í vefvarpi þann 6. febrúar. Bæði L-Acoustics og Treble munu einnig taka þátt í einni stærstu hljóð- og mynd-ráðstefnu í heiminum, ISE 2025, sem haldin er í Barcelona dagana 4-9. febrúar.