Embla Medical kynnti tvær nýjar stoðtækjavörur á árinu 2024 - hátæknihné Icon® frá College Park og Navii® frá Össuri, sem nýta gervigreind til að hámarka virkni og upplifun notandans.
Sveinn Sölvason, forstjóri félagsins, segir að nýsköpun hafi ávallt verið lykilstef í rekstri félagsins.
„Þrátt fyrir að starfsemi fyrirtækisins á Íslandi sé hlutfallslega lítil miðað við heildarreksturinn, þá er sú nýsköpun sem unnin er hér enn hjartað í fyrirtækinu,“ segir Sveinn. Áhersla sé lögð á að finna lausnir sem henta einstaklingum og séu í senn hagkvæmar fyrir heilbrigðiskerfin.
„Við höfum haft mikil áhrif á þróun markaðarins, fjárfest í nýsköpun og ýtt undir tækniþróun í iðnaðinum. Þetta hefur skilað sér í betri lausnum fyrir fleiri einstaklinga og jákvæðum breytingum á heilbrigðiskerfum, þar sem fleiri kerfi eru farin að greiða fyrir þessar góðu lausnir.
Mikil tækifæri felast í áframhaldandi þróun og nýrri tækni eins og gervigreind til að auka hreyfanleika þessara einstaklinga og bæta skilvirkni kerfisins. Betri lausnir draga úr slysum og öðrum fylgikvillum hreyfingarleysis, sem lækkar kostnað heilbrigðiskerfa,“ segir Sveinn og bætir við að nýsköpunarumhverfið á Íslandi hafi batnað til muna á síðustu árum en ganga mætti enn lengra til að efla hugverkaiðnaðinn sem nú sé orðinn fjórða stoðin í efnahagslífinu.
„Ísland byggir hagvöxt sinn á náttúruauðlindum, en þær eru takmarkaðar í eðli sínu. Hugverkaiðnaður skapar ný tækifæri, og við ættum að líta til Danmerkur, sem er með takmarkaðar náttúruauðlindir og hefur með markvissri stefnu fjárfest í og byggt upp allar þær stoðir sem þarf til að þar þrífist iðnaður sem byggir á útflutningi og hugviti. Við eigum að marka okkur metnaðarfulla stefnu í þessum málaflokki.
Endurgreiðslukerfið var gott skref, en við þurfum líka að horfa til menntamála, laða sérfræðinga til landsins, tryggja fyrirsjáanleika og sjá til þess að gott aðgengi sé að fjármagni. Það þarf að huga betur að öllum þessum þáttum svo hér geti þrifist blómlegur iðnaður sem byggir á útflutningi og hugviti.“
Áfram mikil tækifæri til ytri vaxtar
Embla Medical hefur keypt nær hundrað fyrirtæki í gegnum tíðina. Nýleg kaup félagsins eru Fior & Gentz, sem framleiðir íhluti í sérsmíðaðar spelkur fyrir einstaklinga sem glíma við afleiðingar ýmissa taugasjúkdóma, og College Park, sem hannar og framleiðir stoðtæki fyrir neðri útlimi.
„Ytri vöxtur hefur alltaf verið lykilþáttur í þróun fyrirtækisins og verður áfram. Það eru enn mikil tækifæri til að samþætta ákveðinn hluta af markaðnum og nýta okkar alþjóðlegu tengingar og sambönd til að þjónusta notendur betur,“ segir Sveinn, en félagið er nú með starfsemi í tæplega fjörutíu löndum og með yfir 4000 starfsmenn.
Nýtt skipulag styður við vaxtarstefnuna
Á aðalfundi Össurar í fyrra var samþykkt að móðurfélagið tæki upp nafnið Embla Medical. Um var að ræða skipulagsbreytingu þar sem vörumerkin Össur, College Park, Fior & Gentz og ForMotion starfa framvegis undir hatti Emblu Medical. ForMotion sameinar stoðtækjaverkstæði fyrirtækisins undir eitt vörumerki.
Sveinn segir skipulagsbreytinguna gera félaginu kleift að halda áfram að stækka og aðlaga sig að þörfum viðskiptavina.
„Flestir þekkja okkur sem stoðtækjafyrirtækið Össur, sem er enn stór og mikilvægur hluti af starfsemi okkar. Hins vegar höfum við þróað fyrirtækið í þá átt að geta þjónustað einstaklinga með varanlega hreyfiskerðingu, ekki aðeins með stoðtækjum heldur einnig með lausnum fyrir þá sem hafa fengið heilablóðfall eða aðra sjúkdóma sem skerða hreyfigetu og þurfa lausn til lengri tíma.
Þannig erum við bæði að selja vörur en erum einnig hefðbundið þjónustufyrirtæki í þeim löndum þar sem er heilbrigðiskerfi,“ segir Sveinn og bætir við að félagið hafi þar að auki fært sig inn á markaði þar sem einstaklingar greiða sjálfir fyrir heilbrigðisþjónustu, t.d. í Kína, Indlandi, Suður-Ameríku, Suðaustur-Asíu og Afríku.
„Þessar skipulagsbreytingar og fyrirtækjakaup eru hluti af fimm ára vaxtarstefnu okkar til ársins 2027, sem snýst um að stækka fyrirtækið og nálgast hreyfanleika í stærra samhengi,“ bætir Sveinn við.
Hann segir stefnuna hafa gengið vel til þessa og félagið hafi náð sínum markmiðum um vöxt og arðsemi. Hann sér áfram mikil tækifæri til að stækka notendahópinn og bendir á að hlutfallsleg notkun á góðum stoðtækjum sé enn lág, bæði í löndum með sterk heilbrigðiskerfi og þar sem aðgangur að slíkum lausnum er takmarkaður.
„Við lítum á það sem okkar verkefni að auka aðgengi að góðum lausnum sem eru hagkvæmar fyrir samfélagið. Þær bæta líf einstaklinga og draga úr álagi á heilbrigðiskerfið. Þess vegna leggjum við áherslu á vöxt – aðeins þannig náum við til fleira fólks,“ bætir Sveinn við að lokum.
Nánar er rætt við Svein í sérblaði Viðskiptablaðsins um Iðnþing sem fór fram í Silfurbergi í Hörpu sl. fimmtudag. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.