Rekstur Haga hf. á þriðja ársfjórðungi gekk vel, samkvæmt nýbirtum árshlutareikningi félagsins.
Vörusala samstæðunnar var á pari við fyrra ár og nam 43,7 milljörðum króna, en afkoman batnaði verulega.
EBITDA jókst um 13,1% milli ára og nam 3,7 milljörðum króna, meðan hagnaður jókst um 24,6% og var 1,4 milljarðar króna. Hagnaður Haga á fyrstu níu mánuðum ársins í fyrra nam 3,8 milljörðum króna.
Eigið fé samstæðunnar var 29,7 milljarðar í lok tímabilsins og eiginfjárhlutfall 35,4%.
Tekjur tengdar verslunum og vöruhúsum, svo sem Bónus, Hagkaup, Eldum rétt og fleiri einingum, jukust um 4,2% og námu 31,5 milljörðum króna.
Heimsóknum viðskiptavina í dagvöruverslanir fjölgaði um 1,3%, þó að seldum stykkjum hafi lítillega fækkað vegna breyttrar samsetningar vörukaupa.
„Hér spilar m.a. inn í breytt samsetning vörukaupa, en ekki síður aukið framboð af stærri og hagkvæmari sölueiningum sem mælst hafa vel fyrir hjá viðskiptavinum en torvelda aðeins samanburð á seldum stykkjum. Hjá Bónus er áfram unnið að því að auðvelda viðskiptavinum hagkvæm matvöruinnkaup, m.a. með aukinni þjónustu en nú er Gripið & Greitt sjálfsk í boði í 11 verslunum og hentar vel þegar mikið er verslað,” er haft eftir Finni Oddsyni forstjóra Haga í uppgjörinu
Tekjur Olís drógust saman um 2,6%, aðallega vegna lækkunar heimsmarkaðsverðs á olíu og samdráttar hjá stórnotendum.
Á smásölumarkaði jókst þó sala eldsneytis og tók markaðurinn vel á móti auknu vöruframboði, til dæmis í veitingum hjá Grill 66 og Lemon Mini.
„Tekjur Olís námu ríflega 12,7 ma. kr. og drógust saman á milli tímabila. Afkoma var engu að síður góð og umfram væntingar. Samdrátt í tekjum má að mestu rekja til mikillar lækkunar á heimsmarkaðsverði olíu á milli ára. Sala í lítrum dróst lítillega saman, einkum vegna minni umsvifa hjá stórnotendum, en á móti var töluverð aukning á smásölumarkaði. Viðskiptavinir taka auknu þjónustu- og vöruframboði vel en töluverð aukin sala var í þurrvöru og veitingum, m.a. hjá Grill 66 og Lemon Mini,” segir Finnur.
Í lok ársfjórðungsins gekk Hagar frá kaupum á öllu hlutafé í færeyska verslunarfélaginu P/F SMS, sem rekur 13 verslanir, veitingastaði og verksmiðjur auk þess að eiga umtalsverðar fasteignir.
Með þessum kaupum bættu Hagar við sig tæplega 11.000 fermetrum í fasteignum, sem styrkja rekstrargrundvöll félagsins enn frekar, samkvæmt uppgjörinu.
„Kaupin á SMS eru í samræmi við markmið okkar og stefnu um að horfa til nýrra tækifæra til að efla starfsemi, bæði tengd kjarnastarfsemi og nýjum tekjustraumum. Með kaupunum rennum við nýrri stoð undir rekstur Haga og styrkjum félagið á sviði dagvöruverslunar, með auknum umsvifum og tækifærum sem felast í því að efla þjónustu Haga á Íslandi og SMS í Færeyjum,“ segir Finnur.
Hagar gera ráð fyrir að EBITDA ársins verði á bilinu 14-14,5 milljarðar króna og segir í uppgjörinu að kaupin SMS styrki þessa spá.
„Við erum stolt af þeim árangri sem hefur náðst, bæði í rekstri á Íslandi og með nýjum tækifærum í Færeyjum. Fjárhagsstaða félagsins er traust og framtíðin björt,“ segir Finnur að lokum.