Rekstur Haga hf. á þriðja árs­fjórðungi gekk vel, sam­kvæmt ný­birtum árs­hluta­reikningi félagsins.

Vöru­sala sam­stæðunnar var á pari við fyrra ár og nam 43,7 milljörðum króna, en af­koman batnaði veru­lega.

EBITDA jókst um 13,1% milli ára og nam 3,7 milljörðum króna, meðan hagnaður jókst um 24,6% og var 1,4 milljarðar króna. Hagnaður Haga á fyrstu níu mánuðum ársins í fyrra nam 3,8 milljörðum króna.
Eigið fé sam­stæðunnar var 29,7 milljarðar í lok tíma­bilsins og eigin­fjár­hlut­fall 35,4%.

Tekjur tengdar verslunum og vöru­húsum, svo sem Bónus, Hag­kaup, Eldum rétt og fleiri einingum, jukust um 4,2% og námu 31,5 milljörðum króna.

Heimsóknum við­skipta­vina í dag­vöru­verslanir fjölgaði um 1,3%, þó að seldum stykkjum hafi lítil­lega fækkað vegna breyttrar sam­setningar vöru­kaupa.

„Hér spilar m.a. inn í breytt sam­setning vöru­kaupa, en ekki síður aukið fram­boð af stærri og hag­kvæmari sölu­einingum sem mælst hafa vel fyrir hjá við­skipta­vinum en tor­velda aðeins saman­burð á seldum stykkjum. Hjá Bónus er áfram unnið að því að auðvelda við­skipta­vinum hag­kvæm mat­vöru­inn­kaup, m.a. með aukinni þjónustu en nú er Gripið & Greitt sjálf­sk í boði í 11 verslunum og hentar vel þegar mikið er verslað,” er haft eftir Finni Odd­syni for­stjóra Haga í upp­gjörinu

Tekjur Olís drógust saman um 2,6%, aðal­lega vegna lækkunar heims­markaðsverðs á olíu og sam­dráttar hjá stór­not­endum.

Á smásölu­markaði jókst þó sala elds­neytis og tók markaðurinn vel á móti auknu vöru­fram­boði, til dæmis í veitingum hjá Grill 66 og Lemon Mini.

„Tekjur Olís námu ríf­lega 12,7 ma. kr. og drógust saman á milli tíma­bila. Af­koma var engu að síður góð og um­fram væntingar. Sam­drátt í tekjum má að mestu rekja til mikillar lækkunar á heims­markaðsverði olíu á milli ára. Sala í lítrum dróst lítil­lega saman, einkum vegna minni um­svifa hjá stór­not­endum, en á móti var tölu­verð aukning á smásölu­markaði. Við­skipta­vinir taka auknu þjónustu- og vöru­fram­boði vel en tölu­verð aukin sala var í þurr­vöru og veitingum, m.a. hjá Grill 66 og Lemon Mini,” segir Finnur.

Í lok árs­fjórðungsins gekk Hagar frá kaupum á öllu hluta­fé í færeyska verslunarfélaginu P/F SMS, sem rekur 13 verslanir, veitingastaði og verk­smiðjur auk þess að eiga um­tals­verðar fast­eignir.

Með þessum kaupum bættu Hagar við sig tæp­lega 11.000 fer­metrum í fast­eignum, sem styrkja rekstrar­grund­völl félagsins enn frekar, sam­kvæmt upp­gjörinu.

„Kaupin á SMS eru í samræmi við mark­mið okkar og stefnu um að horfa til nýrra tækifæra til að efla starf­semi, bæði tengd kjarna­starf­semi og nýjum tekju­straumum. Með kaupunum rennum við nýrri stoð undir rekstur Haga og styrkjum félagið á sviði dag­vöru­verslunar, með auknum um­svifum og tækifærum sem felast í því að efla þjónustu Haga á Ís­landi og SMS í Færeyjum,“ segir Finnur.

Hagar gera ráð fyrir að EBITDA ársins verði á bilinu 14-14,5 milljarðar króna og segir í upp­gjörinu að kaupin SMS styrki þessa spá.

„Við erum stolt af þeim árangri sem hefur náðst, bæði í rekstri á Ís­landi og með nýjum tækifærum í Færeyjum. Fjár­hags­staða félagsins er traust og framtíðin björt,“ segir Finnur að lokum.