Hátt í 30 starfsmenn hjá tæknifyrirtækinu Meta hafa misst vinnuna fyrir að misnota matarkort sem fyrirtækið gaf þeim. Starfsfólkið mun hafa notað kortin til að kaupa hluti eins og tannkrem, tannbursta og vínglös.

Starfsmönnum Meta voru gefin 25 dala kort fyrir hádegismat, 20 dala kort fyrir morgunmat og 25 dala kort fyrir kvöldmat. Sumir voru þá einnig reknir fyrir að eyða umfram kostnað.

Meta hefur verið að fækka stöðugildum hjá fyrirtækinu og hafa starfsmenn innan WhatsApp, Instagram og Reality Labs, sýndarveruleikafélagsins sem sér um Oculus-heyrnatólin, einnig verið látnir taka pokana sína.

Það er óljóst hversu mikla viðvörun starfsmenn fengu áður en tilkynningin um brottrekstur barst. Sumir fullyrða að þeir hafi ekki fengið neina viðvörun en talsmenn Meta segja að flestir hafi fengið viðvörun og hætt að misnota kortin. Engu að síður var þeim sagt upp þremur mánuðum seinna.