Reykjavíkurborg hefur ákveðið að regnbogi verður áfram á Skólavörðustíg eftir að starfshópur um framtíðarsýn regnbogans kynnti tillögur sínar fyrir umhverfis- og skipulagsráði.
„Borgarstjórn ákvað fyrst árið 2019 að regnboginn yrði áfram á Skólavörðustíg ef það hentaði eftir endurhönnun götunnar sem leit dagsins ljós 2021. Þá var ákveðið að skipa starfshóp um framtíðarsýn varðandi regnbogann. Hún liggur nú fyrir og tillaga um staðsetningu hefur verið samþykkt,“ segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Hópurinn átti að skila niðurstöðu í september í fyrra en ekki er tekið fram í tilkynningu af hverju ákvörðun dróst. Niðurstaða starfshópsins var sú að regnboginn verður áfram á Skólavörðustíg.
Starfshópurinn átti skila kostnaðarmettum tillögum en þær eru ekki að finna í kynningu hópsins eða fréttatilkynningu borgarinnar.
Í starfshópnum voru fulltrúar Samtakanna ‘78, Hinsegin daga í Reykjavík, borgarhönnunar Reykjavíkurborgar og mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu borgarinnar.
„Það er dásamlegt að regnboginn verði áfram á sínum stað til frambúðar enda kennitákn um mannréttindaborgina Reykjavík þar sem öll eru velkomin,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir formaður umhverfis- og skipulagsráðs, í tilkynningu.
„Þessi varði skiptir miklu máli í hugum og hjörtum okkar allra sem berjumst fyrir mannréttindum hinsegin fólks sem hefur átt undir högg að sækja. Kennitákn um hinseginleika og hinseginbaráttu á sannarlega heima í hjarta Reykjavíkur,“ segir hún.

Forhönnun Skólavörðustígs sem kynnt var 2021 verður nú aðlöguð að regnboganum og hann festir sig þar með í sessi í götumyndinni.
Hinsegin samfélagið verður með í ráðum svo tryggt verði að táknmynd réttindabaráttu þess, regnboginn, eigi áfram veglegan sess á þessum stað. Þetta var samþykkt einróma í umhverfis- og skipulagsráði í morgun, 7. júní.
Regnboginn á Skólavörðustíg hefur frá því hann var málaður fyrst á götuna árið 2015 orðið að einu sterkasta kennileiti miðborgarinnar og því mikils virði. Gestir og íbúar borgarinnar fara iðulega á þennan stað til að taka „sjálfur“.
