Seðlabanki Íslands hefur tilkynnt um ákvörðun af hálfu Seðlabanki Slóvakíu um að afturkalla starfsleyfi líftryggingafélagsins NOVIS. Félagið var stofnað í Slóvakíu árið 2014 en er með vátryggingarstarfsemi í gegnum félagið Tryggingar og ráðgjöf á Íslandi.
Ákvörðunin tók gildi í gær og frá og með þeim degi er NOVIS óheimilt að stunda vátryggingarstarfsemi, að undanskilinni þeirri starfsemi sem nauðsynleg er til þess að framfylgja kröfum félagsins og gera upp skuldbindingar þess.
Fjármálaeftirlitið athugar nú hvort upplýsingagjöf félagsins til vátryggingartaka um skilmálabreytingar í október 2021 hafi verið í samræmi við lög um vátryggingarstarfsemi um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti slíkra félaga. Seðlabanki Íslands segist fylgjast með framvindu mála og mun bankinn birta upplýsingar á heimasíðu sinni jafnóðum og þær berast.
Í september 2020 lagð Seðlabanki Slóvakíu tímabundið bann við nýsölu vátryggingaafurða NOVIS á Íslandi en sú ákvörðun náði yfir allt evrópska efnahagssvæðið. Árið 2018 hafði fjármálaeftirlitið gert margvíslegar athugasemdir við sölu og markaðssetningu Trygginga og ráðgjafar á tryggingum NOVIS á Íslandi. Þá voru um 5.200 einstaklingar með virka samninga á Íslandi en sölubannið var síðar fellt úr gildi 12. febrúar 2021.
Hákon Hákonarson, framkvæmdastjóri félagsins, sagði í samtali við Kjarnann í byrjun árs 2022 að félagið hefði selt tryggingar frá NOVIS til tíu þúsund manns.
Það var svo niðurstaða Seðlabanka Slóvakíu í apríl 2021 að NOVIS hafi brotið gegn skyldum sínum að fjárfesta ekki iðgjöldum viðskiptavina að fullu samkvæmt vátryggingarsamningnum.