Þýski íþróttavöruframleiðandinn Adidas mun greiða Kasper Rorsted, fyrrum forstjóra sínum, tæplega 16 milljónir evra, eða sem nemur 2,4 milljörðum króna, vegna starfsloka hans. Bloomberg greinir frá.
Greiðslan samanstendur af 12 milljónum evra vegna starfslokasamnings, 3,6 milljónir evra vegna skuldbindingar um að taka ekki við starfi hjá samkeppnisaðila á næstu átján mánuðum og 300 þúsund evrur til að uppfylla starfssamning hans á tímabilinu 12.-31. desember 2022.
Rorsted samþykkti í lok síðasta árs að láta af störfum fjórum árum áður en samningnum átti að ljúka. Tími Danans hjá Adidas gekk vel í upphafi en á síðustu misserum hefur þýska fyrirtækið sent frá sér röð neikvæðra afkomuviðvarana. Þá reyndist afar kostnaðarsamt fyrir Adidas að slíta samstarfi við rapparann Kanye West.
Adidas tilkynnti í dag um tap eftir skatta á fjórða ársfjórðungi 2022 að fjárhæð 512 milljónir evra eða sem nemur 77 milljörðum króna.
Norðmaðurinn Bjørn Gulden, sem starfaði áður sem forstjóri Puma, tók nýlega við sem forstjóri Adidas.