Bandaríski verslunarrisinn Macy‘s hefur frestað birtingu árshlutauppgjörs eftir að félagið uppgötvaði að starfsmaður á bókhaldssviði hefði falið flutningsgjöld upp á allt að 154 milljónir dala, eða sem nemur 21 milljarði króna frá árslokum 2021.

Hlutabréfaverð Macy‘s hefur lækkað um meira en 4% frá opnun markaða í dag.

Macy‘s segir að rannsóknir félagsins gefi til kynna að einn starfsmaður þess, sem beri ábyrgð á bókhaldi í tengslum við dreifingu á litlum pökkum, hafi viljandi framkvæmt rangar bókhaldsfærslur til að fela ákveðin útgjöld.

Félagið gaf ekki upp hvers vegna starfsmaðurinn, sem nú hefur verið vikið úr starfi, faldi útgjöldin. Verslunarkeðjan segist ekki hafa borið kennsl á þátttöku neins annars starfsmanns.

Félagið áætlar að starfsmaðurinn hafi falið útgjöld upp á 132-154 milljónir dala eða á bilinu 18-21 milljarð króna frá fjórða ársfjórðungi 2021 til síðasta ársfjórðungs. Til samanburðar nam dreifingarkostnaður félagsins á umræddu tímabili 4,36 milljörðum dala.

Macy‘s segir engin merki um að skekkjan í bókhaldinu hafi haft áhrif á greiðslur til birgja eða reiðufjárstjórnun félagsins að öðru leyti.

Í umfjöllun Wall Street Journal segir að á síðustu árum hafi myndast skortur á hæfum bókurum og endurskoðendum. Færri nemendur sækjast eftir endurskoðunarnámi sem hafi leitt til þess að lengri tíma tekur að ráða í auglýstar stöður. Sérfræðingar telji að vandinn gæti aukist eftir því sem fleiri bókarar og endurskoðendur fari á eftirlaun.