Starfsmaður japanska fjármálaráðuneytisins er sagður hafa týnt mikilvægum skjölum sem innihéldu persónuupplýsingar 187 einstaklinga sem grunaðir eru um fíkniefnasmygl á skemmtanakvöldi með samstarfsmönnum.

Að sögn japanska ríkisútvarpsins er fjármálaráðuneytið miður sín vegna atviksins og að það hafi grafið verulega undan trausti almennings.

Starfsmaðurinn, sem hefur ekki verið nafngreindur, er sagður hafa drukkið níu bjórglös á fimm klukkustundum með vinnufélögum sínum í Yokohama þann 6. febrúar sl. Hann mun síðan hafa týnt töskunni sinni en áttaði sig ekki á því fyrr en hann var kominn um borð í lest til annarrar borgar þar sem hann bjó.

Áfengi hefur verið litið á sem nokkurs konar ísbrjót fyrir félagslegar samkomur í Japan í fleiri þúsund ár og eru viðskiptasamningar og erfið mál oft rædd með bjórflöskur og sake á borðinu.