Rekstur Jarðborana hefur tekið við sér á síðustu misserum. Starfsmannafjöldi félagsins hefur nærri tvöfaldast og farið úr 120 í ríflega 240 á einu og hálfu ári samhliða því að verkefnastaða hér heima hefur batnað og félagið tók að sér stórt jarðhitaverkefni í Filippseyjum.

Sveinn Hannesson, forstjóri Jarðborana, segir félagið finna fyrir miklum áhuga á borunum eftir jarðhita og verkefnastaða félagsins næstu árin, bæði hér á landi og erlendis, líti vel út.

Jarðboranir eiga í dag 14 bora, þar af þrjá stóra og einn meðalstóran fyrir djúpboranir og tíu minni fyrir vatns- og hitaveituboranir í gegnum dótturfélag sitt, Ræktunarsambandið. Félagið tók við nýjum bor í síðasta mánuði og Sveinn á von á að félögin bæti við sig fleiri borum á næstu árum ásamt því að fjárfesta í endurnýjun flotans.

„Við erum mjög samkeppnisfær í jarðhitaborunum og erum að keppa úti um allan heim. Eftir því sem ég kemst næst erum við eina alþjóðlega borfyrirtæki heims sem hefur aldrei borað eftir olíu.“

Tveir af þremur stærstu borum félagsins eru að störfum í Filippseyjum.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Áhuginn aukist verulega

Sveinn segir að áhugi á jarðhita hafi aukist verulega erlendis, ekki síst í Asíu. Eftirspurn í Evrópu hafi einnig aukist, m.a. þar sem stórar þjóðir á borð við Þýskaland hafa unnið að því að draga úr vægi rússnesks gass. Í löndum eins og Þýskalandi, Danmörku og Póllandi sé einkum horft til jarðhitaborunar fyrir húshitun þar sem jarðhitinn er yfirleitt ekki nægilega mikill fyrir raforkuframleiðslu.

Á meðfylgjandi mynd, sem tekin er úr gagnagrunni Rystad Energy, má sjá spá um útgjöld til jarðhitaframkvæmda á heimsvísu fram til ársins 2030. Útlit er fyrir umtalsverða aukningu út þennan áratug sem skýrist að mestu leyti af áformum um auknar framkvæmdir í Kína.

Spáin er samræmi við spá Alþjóðlegu orkumálastofnunarinnar IEA frá því í desember sl. sem gerir ráð fyrir að vöxtur jarðhitaorku verði meiri á árunum 2024-2030, heldur en á árunum 2017-2023.

Rystad heldur einnig úti upplýsingum um kostnað við boranir eftir mörkuðum. Í Evrópu er meðalkostnaðurinn lægstur á Íslandi. Sveinn segir að hafa þurfi í huga að á ákveðnum mörkuðum eins í Bretlandi þurfi að bora djúp eftir hitavatni sem kann að lita slíkan samanburð.

„Í samanburðinum eru þó einnig lönd eins og Ítalía, Grikkland, Króatía og Ungverjaland sem eru með gott aðgengi að jarðhita. Þessi lönd liggja mun nær þjónustumörkuðum en við. Við þurfum að flytja allt með sjó, erum með dýrt vinnuafl, og búum oft við krefjandi veðurfar. Þegar öllu er á botninn hvolft þá er í raun ótrúlegt hvað við komum vel út í þessum samanburði.“

Fréttin er hluti af ítarlegu viðtali við Svein í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast greinina í heild sinni hér og annað efni úr blaðinu hér.