Starfsmenn Boeing munu greiða atkvæði um nýjan kjarasamning á mánudaginn frá fyrirtækinu sem felur meðal annars í sér 38% launahækkun á næstu fjórum árum. Stéttarfélag starfsmanna Boeing hefur nú þegar samþykkt tilboðið.
Verkfallið hófst 13. september sl. og hefur það leitt til mikils samdráttar í framleiðsluferli Boeing, sem var þegar að glíma við önnur stórfelld vandamál.
Stéttarfélagið, International Association of Machinists and Aerospace Workers, hafði áður fyrr farið fram á 40% launahækkun. Starfsmenn hafa þegar hafnað tveimur tilboðum en síðasta tilboðið fól í sér 35% launahækkun.
„Það er kominn tími til að meðlimir okkar ljúki þessu og lýsi yfir sigri. Við teljum að það sé ekki rétt að biðja félagsmenn um að vera lengur í verkfalli þegar við höfum náð svona miklum árangri,“ segir í tilkynningu frá stéttarfélaginu.
Auk fyrirhugaðrar launahækkunar felur nýjasta tilboðið einnig í sér 12 þúsund dala bónus fyrir starfsmenn sem er veruleg hækkun frá síðasta tilboði sem hljómaði upp á sjö þúsund dali.