Stjórn Marels ákvað í dag að veita kauprétti að allt að 10,2 milljónum hluta í félaginu, eða um 1,3% hlut, til meðlima framkvæmdastjórnar og starfsmanna í lykilstöðum, samtals 396 starfsmönnum. Markaðsvirði hlutanna nemur um 6 milljörðum króna.

Heildarfjöldi útistandandi kauprétta sem Marel hefur veitt starfsmönnum sínum nemur nú 28,6 milljónum hluta, eða um 3,7% hlutafjár í félaginu, og er þá meðtalin þessi nýja úthlutun kauprétta.

„Kaupréttarsamningunum er ætlað að samtvinna hagsmuni starfsmanna og félagsins til lengri tíma,“ segir í tilkynningu Marels til Kauphallarinnar.

Nýju kaupréttarsamningarnir eru veittir á grunnverðinu 3,80 evrur á hlut, eða um 587 krónur á gengi dagsins, í samræmi við dagslokaverð bréfanna í gær. Verðið skal leiðrétt fyrir arðgreiðslum.

Úthlutun kauprétta til framkævmdastjórnar

Meðlimur framkævmdastjórnar Fjöldi hluta
Árni Oddur Þórðarson 530.000
Linda Jónsdóttir 319.000
Árni Sigurðsson 319.000
Stacey B. Katz 180.000
Davíð Freyr Oddsson 132.000
Framkvæmdastjórn samtals 1.480.000

Ávinnslutími kaupréttanna er þrjú ár frá úthlutun. Heimilt verður að nýta áunna kauprétti fjórum sinnum á ári eftir birtingu ársfjórðungsuppgjöra. Fyrsta nýtingartímabil mun hefjast eftir birtingu ársuppgjörs fyrir árið 2025, á fyrsta ársfjórðungi 2026. Kaupréttur er aðeins gildur sé kaupréttarhafi í starfi hjá Marel þegar ávinnslutíma lýkur.

„Meðlimum framkvæmdastjórnar (Executive Board) Marel ber að halda eftir hlutum sem nema fjárhæð hreins hagnaðar af kaupréttunum, þegar skattar hafa verið dregnir frá, þar til eftirfarandi fjárhæðarviðmiðum er náð, mælt í virði hlutafjáreignar í félaginu sem margfeldi af grunnárslaunum: forstjóri þrisvar sinnum árslaun; aðrir meðlimir framkvæmdastjórnar Marel tvisvar sinnum árslaun.“

Heildarkostnaður félagsins vegna nýju samninganna á næstu þremur árum er áætlaður um 9,2 milljónir evra, eða um 1,4 milljarðar króna, og er þá byggt á reiknilíkani Black-Scholes.