Kínversk stjórnvöld hafa sleppt fimm starfsmönnum bandaríska ráðgjafarfyrirtækisins Mintz Group. Starfsfólkið var handtekið fyrir rúmlega tveimur árum sem hluti af víðtækari aðgerð gegn ráðgjafarfyrirtækjum sem unnu með erlendum fyrirtækjum.
Starfsfólkið var sett í farbann í mars 2023 en um það leyti jukust grunsemdir um njósnir í Kína og í kjölfarið var ráðist á nokkur ráðgjafarfyrirtæki eins og Bain & Company og Capvision Partners.
„Við erum þakklát kínverskum yfirvöldum fyrir að sleppa fyrrum starfsfólki okkar sem getur nú verið heima með fjölskyldum sínum,“ segir í yfirlýsingu frá Mintz Group, sem bætti við að allir fimm starfsmennirnir væru kínverskir ríkisborgarar.
Ákvörðun stjórnvalda um að sleppa starfsfólkinu kemur samhliða viðskiptaráðstefnu sem fór nýlega fram í Peking. Þar mættu tugir erlendra forstjóra, þar á meðal Tim Cook og Albert Bourla hjá Pfizer.
Kínversk yfirvöld hafa reynt að endurvekja erlenda fjárfestingu innan hagkerfisins en samkvæmt gögnum sem gefin voru út í febrúar hafa beinar erlendar fjárfestingar í landinu lækkað um 99% á síðustu þremur árum.