Starfsmenn Amazon í Bandaríkjunum gætu verið á leið í verkfall rétt fyrir jól en meðlimir Teamsters, verkalýðsfélags starfsmanna, höfðu kosið að styðja við mögulegar verkfallsaðgerðir.

Samkvæmt BBC segja starfsmenn Amazon að fyrirtækið hafi neitað að viðurkenna verkalýðsfélag þeirra og hunsað frestinn sem þeir höfðu gefið til að halda viðræður fyrir 15. desember.

Vöruhús Amazon í suðurhluta Kaliforníu, New York og Illinois gætu orðið fyrir áhrifum samkvæmt yfirlýsingu frá Teamsters. „Fyrirtækjaelítan sem rekur Amazon skilur starfsmenn eftir með ekkert annað val,“ segir Sean M O‘Brien, forseti Teamsters.

Rannsóknarnefnd bandaríska þingsins komst að þeirri niðurstöðu í vikunni eftir rannsókn að Amazon hafi neytt starfsmenn vöruhúsa í Bandaríkjunum til að uppfylla pantanir á hraða sem gæti valdið miklum meiðslum.

Amazon segir hins vegar að skýrslan sé röng og innihaldi úreltar upplýsingar sem skorti samhengi og séu ekki byggðar á raunveruleikanum. Fyrirtækið, sem er með rúmlega 800 þúsund starfsmenn, hefur þó staðið frammi fyrir ásökunum um óöruggar aðstæður í vöruhúsum sínum í mörg ár.