Starfsmenn hjá suðurkóreska tæknirisanum Samsung hafa boðað til síns fyrsta verkfalls síðan verkalýðsfélag þeirra var stofnað fyrir rúmlega sextíu árum síðan. Félagið er með 28 þúsund meðlimi og samsvarar um fimmtungi af vinnuafli Samsung.

Verkalýðsfélagið, The National Samsung Electronics Union, hefur boðað eins dags verkfall og biður alla meðlimi sína um að nýta launað leyfi sitt þann 7. júní nk. og útilokar ekki fleiri verkföll í framtíðinni.

„Við þolum ekki þessar ofsóknir gegn verkalýðsfélögum lengur. Við lýsum yfir verkfalli í ljósi vanrækslu fyrirtækisins á verkamönnum,“ sagði fulltrúi félagsins á blaðamannafundi.

Stjórnendur Samsung hafa átt í viðræðum við verkalýðsfélagið frá því í byrjun þessa árs um laun, en báðir aðilar hafa hingað til ekki náð samkomulagi. Verkalýðsfélagið hefur krafist 6,5% launahækkunar og bónusgreiðslna sem tengjast afkomu fyrirtækisins.

Samsung Electronics er stærsti framleiðandi minniskubba, snjallsíma og sjónvarpa í heiminum og hafa sérfræðingar varað við að verkfall gæti haft áhrif alþjóðlegar aðfangakeðjur þegar kemur að rafeindatækni.

Fyrirtækið var þekkt fyrir að leyfa ekki verkalýðsfélögum að tala fyrir hönd starfsmanna sinna fyrr en 2020 þegar Samsung endaði í opinberri rannsókn eftir að stjórnarformaður þess var sóttur til saka fyrir markaðsmisnotkun og mútur.