Verkalýðsfélag starfsmanna hjá suðurkóreska tæknirisanum Samsung hefur hvatt félagsmenn sína til að halda áfram verkfalli sínu um óákveðinn tíma. Félagið segir að stjórnendur fyrirtækisins hafi ekki sýnt neinn vilja gagnvart viðræðum.

National Samsung Electronics Union (NSEU) er með rúmlega 30 þúsund meðlimi og sendi tilkynninguna frá sér eftir þriggja daga mótmælaverkfall.

NSEU segir að verkfallið hafi truflað framleiðslu fyrirtækisins en Samsung hefur neitað þeim fullyrðingum og segir að fyrirtækið taki enn þátt í samningaviðræðum í góðri trú við stéttarfélagið.

Talsmaður Samsung vildi ekki tjá sig um það hve margir meðlimir tóku þátt í verkfallinu en verkföll af þessu tagi eru mjög sjaldgæf í Suður-Kóreu. Í síðasta mánuði átti sér stað fyrsta verkfall hjá fyrirtækinu síðan verkalýðsfélagið var stofnað fyrir næstum 60 árum síðan.