Starfsmenn Samkeppniseftirlitsins hafa á grundvelli kjarasamnings BHM (þ. e. Kjarafélags viðskipta- og hagfræðinga og Stéttarfélags lögfræðinga) og Sameykis, fengið greidd viðbótarlaun.
Í svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsin segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, að um óverulegar upphæðir sé þó að ræða sem eru ekki tengdar úrlausnum eða niðurstöðum rannsókna.
Heildarupphæð viðbótarlauna starfsmanna á síðustu þremur árum nemur 11,5 milljónir króna.
„Á grundvelli greinarinnar hefur Samkeppniseftirlitið við sérstakar aðstæður greitt einstökum starfsmönnum svokölluð viðbótarlaun. Hefur það verið gert við sérstakar tímabundnar og ófyrirséðar aðstæður þar sem álag á starfsmann og framlag til starfs er talið vera umfram það sem gert var ráð fyrir í umsömdum launum,“ segir í svari Samkeppniseftirlitsins við fyrirspurn Viðskiptablaðsins.
Mun þetta vera í samræmi við reglur fjármála- og efnahagsráðuneytisins um greiðslu viðbótarlauna til almennra starfsmanna ríkisins.
Páll Gunnar segir að starfsmenn Samkeppniseftirlitsins ekki búa við hvatakerfi í formi kerfisbundinnar umbunar.
Er tekið fram í svari eftirlitsins að viðbótarlaun séu t. d. ekki tengd mælikvörðum er varða úrlausn rannsókna, s. s. efnislegar niðurstöður eða íhlutanir.
„Þannig eru viðbótarlaun t. d. ekki tengd mælikvörðum er varða úrlausn rannsókna, s. s. efnislegar niðurstöður eða íhlutanir,“ segir Páll Gunnar.
„Óverulegur hluti af launakostnaði eftirlitsins“
Á árunum 2020-2023 hafa viðbótarlaun starfsmanna Samkeppniseftirlitsins numið á bilinu 50.000 – 360.000 kr. á ári pr. starfsmann. „í þeim sérstöku tilvikum sem þau hafa verið greidd.“
Nema viðbótarlaun samkvæmt framangreindum ákvæðum samanlagt 11,5 milljónum króna á þessu tímabili.
„Er það óverulegur hluti af launakostnaði eftirlitsins,“ segir í svari Samkeppniseftirlitsins.
Mikil umræða hefur skapast um viðbótarlaun ríkisstarfsmanna eftir að greint var frá því að starfsmenn Skattsins hafi fengið um 260 milljónir í bónusgreiðslur á síðastliðnum fjórum árum.
Ólíkt því sem Samkeppniseftirlitið tekur fram hefur verið greint frá innbyggðu hvatakerfi hjá Skattinum þar sem sett hafa verið markmið um endurálagningu sem eftirlitsstofnunin hefur ætlað sér að ná
Starfsmönnum Skattsins stendur til boða að fá greidd sérstök viðbótarlaun eða bónusgreiðslur ef þeir skila sérstöku eða framúrskarandi vinnuframlagi í þágu embættisins.