Starfsmenn Volkswagen munu hefja verkfall eftir helgi eftir að kjaraviðræður slitnuðu milli þýska bílaframleiðandans og verkalýðsfélagsins. Lengd verkfallsins mun ráðast eftir því hvernig samningsviðræður þróast.

Rúmlega 300 þúsund starfsmenn vinna hjá Volkswagen í Þýskalandi og er fyrirtækið með tíu verksmiðjur þar í landi. Verkfallið mun hefjast með 120 þúsund starfsmönnum í verksmiðjunum í Wolfsburg, Braunschweig, Hannover, Salzgitter, Emden og Kassel.

Deilur hafa staðið yfir í nokkrar vikur milli Volkswagen og verkalýðsfélagsins IG Metall en fyrirtækið hefur leitað leiða til að hagræða og skera niður kostnað í von um að auka samkeppnishæfni.

Bílaframleiðendur eins og Volkswagen hafa glímt við erfitt tímabil undanfarin misseri vegna minnkandi eftirspurnar á rafbílamarkaðnum og harðrar samkeppni frá kínverskum fyrirtækjum.

Ford Motor tilkynnti nýlega til dæmis að það myndi fækka fjögur þúsund störfum í Evrópu, aðallega í Þýskalandi og hafa GM og Nissan einnig tilkynnt svipuð áform.