Sir Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, lofaði fjárfestum í morgun að hann vildi milda vald breska samkeppniseftirlitsins til að „eyða öllu skriffinnsku“ og greiða leið erlends fjármagns til Bretlands.
Starmer hélt tölu á samkomu alþjóðlegra fjárfesta í Lundúnum í dag en hann lofaði að koma á pólitískum stöðugleika í Bretlandi hvað varðar skatta- og efnahagsstefnu landsins til að greiða leið fyrir því fjármagn leiti til landsins.
„Við munum eyða allri skriffinsku sem stendur í vegi fjárfestinga og munum tryggja það að allir eftirlitsaðilar í landinu taki hagvöxt landsins jafn alvarlega og þeir sem hér sitja,“ sagði Starmer í Guildhall í Lundúnum í morgun en Financial Times greinir frá.
Hann sagði Verkamannaflokkinn í kjörstöðu til að nota umboð sitt frá kjósendum til að ná festu í þessum málum svo fjárfestar gætu með auðveldum hætti metið ávöxtun sína af því að fjárfesta í Bretlandi.
Á fundinum greindi Starmer frá því að erlendir aðilar hafi lofað því að fjárfesta í verkefnum í Bretlandi fyrir um 50 milljarða punda.
Þar af fara 24 milljarðar í græn fjárfestingaverkefni og um 20 milljarðar koma frá Macquarie group í Ástralíu sem hyggst byggja net hleðslustöðva fyrir rafbíla sem og ráðast í vindmylluverkefni við strendur Bretlandseyja.
Breska SKE að hægja á viðskiptum
Breska samkeppniseftirlitið hefur verið harðlega gagnrýnt fyrir að stöðva eða hægja á öllum tegundum fjárfestinga sem hefur rýrt orðspor Bretlands sem álítlegum fjárfestingakosti.
Breska ríkisstjórnin hefur fengið á sig óorð fyrir að vera „á móti tæknifyrirtækjum“ í kjölfarið.
Forstjóri Activision sagði meðal annars að „lokað væri fyrir viðskipti“ í Bretlandi eftir að yfirtökutilboð Microsoft í félagið var stöðvað af þarlendum eftirlitsaðilum.
Starmer mun á næstu dögum gefa út ítarlegri útlistun á þeirri stefnubreytingu sem ríkisstjórnin vilji sjá hjá samkeppniseftirlitinu.