Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, sakar Stefán Ólafsson, starfsmann Eflingar, um að fara með rangfærslur um samningafundi hjá Ríkissáttasemjara um helgina. „Stefán hefur ekki látið staðreyndir þvælast fyrir sér fram til þessa og það hefur ekkert breyst,“ segir Eyjólfur Árni í aðsendri grein á Vísi.

Stefán birti grein í gær þar sem hann lýsti því að viðræður SA og Eflingar í lok síðustu viku hafi gengið vel og við lok föstudags hafi mátt ætla að greið leið væri að brúa bil á milli aðila. Um helgina breyttist tónn SA skyndilega að sögn Stefáns og á sunnudagsmorgun hafi SA ekki viljað halda áfram á þeirri lið „sem þó hafði skilað aðilunum á þann stað að frekar lítið bar í milli“.

Eyjólfur Árni tekur fyrir „fjórar rangfærslur Stefáns“ í grein sinni en bætir þó við upptalningin sé ekki tæmandi. Hann segir m.a. að við lok föstudags hafði „lítið sem ekkert“ þokast í deilunni og aðilar ekki færst nær hvor öðrum.

Varðandi þá ásökun Stefáns að SA hafi skyndilega snúið við blaðinu á sunnudagsmorgun segir Eyjólfur Árni að hér sé á ferðinni „furðutúlkun“.

„Nægir að hrekja hana með því að vitna í orð setts ríkissáttasemjara um fundinn daginn áður sem var honum mikil vonbrigði. Sá fundur var SA líka mikil vonbrigði.

Lögðu fram brauðmola en vildu heilan brauðhleif

Hann hafnar því að Efling hafi tekið mörg skref til að nálgast samkomulags innan þess ramma sem samningur SGS og SA markar. „Það er á engan hátt sannleikanum samkvæmt,“ segir Eyjólfur Árni. Efling hafi í mesta lagi lagt til nokkra brauðmola og vildi í skiptum heilan brauðhleif umfram hin átján SGS félögin.

Stefán gaf í skyn að aðilar hafi verið sammála um að SGS-samningurinn væri ódýrari fyrir fyrirtækin ef hann væri heimfærður á félagsmenn Eflingar á höfuðborgarsvæðinu. Því ætti Efling inni umframhækkun.

Eyjólfur Árni hafnar því að Efling eigi inni umframhækkun. Aftur á móti hafi verið skýrt að SA gæti gert samning sem samrýmdist ramma SA og SGS samningsins.

Vill Efling hleypa af stað upplausn og höfrungahlaupi?

Eyjólfur Árni spyr að lokum hvort Efling vilji taka því fagnandi að fá nýjan kjarasamning þar sem lögð er sérstök áhersla á hækkun þeirra lægstlaunuðu, hvort sem er í prósentum eða krónu, „eða hleypa af stað upplausn og höfrungahlaupi?“

„Eina spurningin sem þá eftir stendur og skiptir raunverulega máli er hvort að samfélagið sætti við sig hið óumflýjanlega upplausnarástand sem verður framvegis á vinnumarkaði sem enginn, nema sjálfsálit forystusveitar Eflingar, mun hagnast á?“