Valdimar Óskarsson, framkvæmdastjóri Keystrike, segir á undanförnum misserum hafi félagið sótt sér 750 milljónir króna í fjármögnunarlotum. Nú sé ný lota í gangi, þar sem þeir forsvarsmenn félagsins vonast til að afla sér 700 til 950 milljóna í viðbót.

„Við höfum fengið gríðarlega athygli erlendra og innlendra sjóða,” segir Valdimar. „Við höfum hafnað sjóðum hingað til, þar sem við höfum ekki talið það tímabært en erum opin fyrir því núna. Megnið af okkar fjárfestum í dag eru innlendir og erlendir einkafjárfestar. Þessu nýja fjármagni verður að miklu leiti varið í stækkun söluteymis í Bandaríkjunum og áframhaldandi þróun á nýrri skýjavörn.”

Nýbúið að gera stóran samning

Keystrike hefur undanfarin misseri verið að þróa lausn, sem nefnist Sanctum Guard. Í einföldu máli má segja að Sanctum Guard greini í rauntíma þegar netglæpamenn hafa hakkað sig inn í tölvur notenda og lokar um leið á að þeir geti komist út úr kerfinu með viðkvæmar upplýsingar.

Valdimar segir að Sanctum Guard sé nú þegar í notkun hjá fjölbreyttum fyrirtækjum víðsvegar um heiminn.

„Við höfum lagt áherslu á að lausnin verji mikilvæga innviði, til dæmis stýringar í orkuverum en við erum einmitt nýbúin að gera stóran samning við Global Water Resources, sem er með höfuðstöðvar í Phoenix í Bandaríkjunum. Þetta er leiðandi fyrirtæki í stjórnun vatnsauðlinda en það á og rekur 29 kerfi, sem veita þjónustu á sviði neysluvatns, fráveitu og endurnýtingar vatns.”

Valdimar segir að næsta skref hjá Keystrike sé lausn sem muni verja hugbúnaðarkerfi í skýinu (e. cloud protector). Stefnt sé að því að koma þessari lausn á markað á þessu ári.

„Þessi nýja lausn okkar mun breyta landslaginu mjög mikið og við erum afar spennt fyrir framhaldinu. Það er gaman að vinna að verkefnum sem bæta heiminn.

Stofn­endur Key­stri­ke, frá vinstri: Árni S. Péturs­son, Valdimar Óskars­son, Ýmir Vig­fús­son, Stein­dór S. Guð­munds­son og Árni Þór Árna­son.
Stofn­endur Key­stri­ke, frá vinstri: Árni S. Péturs­son, Valdimar Óskars­son, Ýmir Vig­fús­son, Stein­dór S. Guð­munds­son og Árni Þór Árna­son.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Stofnteymi Keystrike

Keystrike var stofnað árið 2023. Í stofnteyminu eru menn með mikla reynslu úr netöryggisheiminum en auk Valdimars Óskarssonar eru þetta Árni S. Pétursson rekstrarstjóri, Steinþór S. Guðmundsson vörustjóri, Árni Þór Árnason, sem starfar ekki lengur hjá Keystrike og Ýmir Vigfússon tæknistjóri, sem var á meðal stofnenda netöryggisfyrirtækjanna Syndis og Adversary. Adversary var selt til alþjóðlega netöryggisfyrirtækisins Secure Code Warrior fyrir fimm árum og Origo keypti Syndis árið 2021.

Valdimar, sem er framkvæmdastjóri Keystrike, var forstjóri Syndis frá 2017 til 2023, formaður stjórnar Adversary, sem og í stjórnendastöðum hjá tæknifyrirtækjunum Betware, Betsson Group og Transfast sem keypt var af MasterCard.

Stuttu eftir stofnun Keystrike kom Philippe Langlois, inn í fyrirtækið, sem englafjárfestir og strategískur ráðgjafi. Langlois er frumkvöðull í netöryggi með yfir tveggja áratuga reynslu í geiranum. Hann er stofnandi alþjóðlega netöryggisfyrirtækisins Qualys, sem í dag er leiðandi netöryggisfyrirtæki á alþjóðavettvangi. Þá stofnaði hann einnig P1 Security og Telecom Security Task Force.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.