Líftækni­fyrir­tækið Ocu­lis Holding AG birti árs­hluta­upp­gjör fyrir fyrsta árs­fjórðung ársins 2025 í gærkvöldi en þar kemur fram að félagið vinnur að undir­búningi og fram­kvæmd klínískra rannsókna sem ætlað er að styðja við framtíðar­umsóknir um markaðs­leyfi hjá Bandarísku lyfja- og mat­væla­eftir­litinu (FDA).

Fyrsta form­lega um­sóknin (New Drug App­li­cation, NDA) er áætluð síðar á árinu 2026, að því til­skildu að niður­stöður rannsókna verði jákvæðar og samráð við eftir­lit­saðila þróist sam­kvæmt áætlun.

Fyrir­tækið hefur nú lokið inn­ritun í tvær sam­hliða klínískar rannsóknir á loka­stigi (fasa 3) á lyfinu OCS-01, augn­dropa­með­ferð við sjón­himnu­bjúg. Sam­tals tóku yfir 800 sjúklingar þátt í rannsóknunum DIAMOND-1 og DIAMOND-2.

Sam­kvæmt upp­gjöri Ocu­lis er áætlað að niður­stöður úr fasa 3 rannsóknum á OCS-01 liggi fyrir á öðrum árs­fjórðungi 2026, og að félagið hyggist í kjölfarið leggja fram um­sókn um markaðs­leyfi hjá bandaríska lyfja- og mat­væla­eftir­litinu á seinni hluta þess árs.

Ocu­lis hafði áður gefið til kynna að markaðs­leyfis­umsókn vegna OCS-01 gæti verið lögð fram snemma á þessu ári en áætlanir félagsins hafa nú verið upp­færðar og miða við að um­sóknin verði lögð fram eftir að niður­stöður fasa 3 rannsókna liggja fyrir.

Ef lyfið hlýtur samþykki yrði OCS-01, sam­kvæmt Ocu­lis, fyrsta staðbundna og inn­grips­lausa lyfja­með­ferðin fyrir sjón­himnu­bjúg af völdum sykursýki (DME) sem fengi markaðs­leyfi í Bandaríkjunum.

Í árs­hluta­upp­gjöri félagsins kemur fram að nettótap á fyrsta árs­fjórðungi nam 36,9 milljónum Bandaríkja­dala, sem jafn­gildir 0,77 dölum á hlut. Til saman­burðar nam tap á sama tíma­bili árið 2024 alls 18,4 milljónum dala, eða 0,50 dölum á hlut.

Rannsóknar- og þróunar­kostnaður jókst í 16,4 milljónir dala, saman­borið við 12,4 milljónir dala árið áður. Al­mennur rekstrar­kostnaður hækkaði á sama tíma­bili úr 5,4 milljónum í 6,1 milljón dala. Í skýringum félagsins er tap þetta að hluta til rakið til aukins um­fangs klínískra rannsókna, hærri starfs­manna­kostnaðar og mats­breytinga á fjár­hags­legum skuld­bindingum.

Á móti kemur fram í upp­gjörinu að sjóðstaða félagsins hafi styrkst veru­lega í kjölfar hluta­fjáraukningar að fjár­hæð 100 milljónir Bandaríkja­dala, sem lauk í febrúar 2025. Hand­bært fé, ígildi þess og skammtíma­fjár­festingar námu alls 206,3 milljónum dala í lok mars, saman­borið við 109 milljónir dala í lok árs 2024.

Félagið greinir frá því að, miðað við núverandi þróunaráætlanir og rekstrar­for­sendur, dugi þessi lausa­fjár­staða til að standa undir rekstri þess fram yfir árs­byrjun 2028.