Á undanförnum áratugum hefur lyfjaiðnaðurinn tekið stakkaskiptum, en í dag er heildarsala á lyfjum í heiminum yfir 1,5 billjónir dala (1.500 milljarðar dala). Sérstaklega hefur eftirspurn eftir líftæknilyfjum aukist til muna, sem nú eru um 40% af heildarlyfjasölu í Bandaríkjunum og yfir 30% Evrópu.

Um 60% af fjármagni til að þróa ný lyf, sem koma á markað á næstu tíu árum, eru vegna líftæknilyfja. Því gæti hlutfall líftæknilyfja af heildarsölu lyfja í heiminum farið upp í 50%, og jafnvel 60%, á næstu tveimur áratugum.

Róbert Wessman, forstjóri Alvotech, segir að hliðstæða félagsins við Humira hafi nú þegar náð 10% markaðshlutdeild í Bandaríkjunum.

„Við áætlum að hliðstæður fyrir Humira muni fyrir árslok verða um 30% af heildarsölu á þeim markaði. Því erum við með um einn þriðja hliðstæðumarkaðar Humira.“

Róbert reiknar með að fleiri sjúklingar hætti að nota frumlyfið Humira vegna kostnaðar við lyfið, og að hliðstæðan komi sterkari inn. Alvotech er í samstarfi við Quallent og Accredo, sem er þriðja stærsta sérhæfða apótekkeðja Bandaríkjanna. Bæði félögin eru í eigu Cigna tryggingarfélagsins.

„Ef sjúklingur velur okkar lyf þarf hann ekki að greiða fyrir það, á meðan frumlyfið kostar þá 3.500 dollara á ári, eða tæpa hálfa milljón króna. Fyrstu mánuðina hefur Accredo og Cigna skipt út um 35% sjúklinga yfir á okkar lyf. Ég tel að þessi þróun muni bara halda áfram.“

Stefna á áframhaldandi vöxt

Tekjur Alvotech voru 339 milljónir dala á fyrstu níu mánuðum ársins, þar af 103 milljónir á þriðja ársfjórðungi. Aðlöguð EBITDA framlegð var 87 milljónir dala, samanborið við neikvæða framlegð upp á 225 milljónir á sama tímabili í fyrra. Á þriðja ársfjórðungi var aðlöguð EBITDA framlegð 23 milljónir dala.

„Við munum skila jákvæðri EBITDU í ár,“ segir Róbert.

Hann bendir þó á að ársreikningurinn innihaldi færslur tengdar breytanlegum skuldabréfum og earn-out bréfum, sem hafa áhrif á bókfærðan hagnað eftir skatta en ekki á sjóðstreymi.

„Við stefnum á 100-150 milljóna dala EBITDA framlegð á þessu ári og áætlanir gera ráð fyrir 600-800 milljóna dala tekjum á næsta ári. Við erum bjartsýn á að ná þeim markmiðum.“

Nánar er rætt við Róbert í Viðskiptablaðinu, sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.