Sveitarfélagið Ölfus gerir ráð fyrir að skila jákvæðri rekstrarniðurstöðu upp á 938 milljónir króna á næsta ári eða rúmlega 16% af heildartekjum. Gangi áætlanir sveitarfélagsins eftir þá verður 2025 besta rekstrarár í sögu Ölfuss.

„Á forsendum þeirrar verðmætasköpunar sem tekist hefur að tryggja á seinustu árum eru nú allar forsendur til að skapa íbúum vaxandi velferð,“ segir í fréttatilkynningu frá Elliða Vignissyni, bæjarstjóra Ölfuss.

„Til grundvallar þessa trausta reksturs liggur uppgangur atvinnulífsins og ábyrgð meðferð almannafjár. Markmiðið er að gera enn betur og sækja fastar fram á forsendum verðmætasköpunar.“

Áætlað er að rekstur sveitarfélagsins skili afgangi í bæði samstæðu og A hluta. Ölfus stefnir að innviðafjárfestingum upp á tæplega 4 milljarða á næsta ári, og hátt í 9 milljarða á næstu 4 árum.

„Framundan eru stærstu atvinnufjárfestingar Íslandssögunnar þar sem m.a. er fyrirhugað að verja 300 til 400 milljörðum í uppbyggingu laxeldis á landi. Þá er unnið að fjölmörgum öðrum nýsköpunarverkefnum bæði í dreifbýli og þéttbýli. Má þar til að mynda nefna: baðlón gróðurhús, skelrækt, gagnaver, smáþörungarækt, drykkjarvöruframleiðslu og margt fleira.

Til að þjónusta þennan mikla vöxt er unnið að stækkun hafnarinnar sem gerir mögulegt að þjónusta skip allt að 200 metra löng í stað þess 130 metra hámarks sem nú er.“

Breyta þorpi í bæ

Ráðgert er að rekstrartekjur samstæðu sveitarfélagsins verði tæplega 5,8 milljarðar á næsta ári og rekstrargjöld 4,4 milljarðar. Veltufé frá rekstri er áætlað um 1,8 milljarðar og fyrirhugað er að greiða langtímalán niður fyrir 240 milljónir króna.

Þá gerir áætlunin ráð fyrir að A hluti verði rekinn með afgangi upp á rúmlega 704 milljónir.

„Íbúar njóta góðs rekstur bæði í lægri gjöldum, aukinni þjónustu og sterkari innviðum. Fasteignaskattshlutfall er lækkað í 0,22 og hefur það þar með verið lækkað um 45% á sex árum.“

„Áætlunin ber í alla staði með sér að Ölfus er í sókn enda hefur íbúum á árinu fjölgað verulega. Höfuð áhersla er því lögð á að mæta þörfum vaxandi samfélags með áherslu á fræðslu- og fjölskyldu mál svo sem með styrkingu félagsþjónustu og framkvæmdum við skóla. Á komandi ári eru allverulegar fjárfestingar fyrirhugaðar enda verið að breyta þorpi í bæ,“ segir Elliði.