Fjarskiptafélögin Nova og Sýn undirrituðu í dag samkomulag um helstu atriði fyrirhugaðra samninga um framsal farnetsdreifikerfa félaganna til Sendafélagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu félaganna til Kauphallarinnar.
Nova og Sýn eru einu hluthafarnir, í jöfnum hlutföllum, í Sendafélaginu ehf., sem var stofnað árið 2015. Sendafélagið hefur það hlutverk að reka dreifikerfi („RAN“ kerfi, e. Radio Access Network) aðilanna á landsvísu í þeim tilgangi að ná fram hagræðingu í rekstri og auka fjárfestingargetu í nýjum tæknilausnum.
Samkomulagið, sem nú hefur verið undirritað, er sagt skref í átt að frekara samstarfi Nova og Sýnar í gegnum Sendafélagið ehf., svo sem ráð var fyrir gert í samningum aðila á árinu 2015, og félögin hyggjast nú hrinda í framkvæmd ef endanlegir samningar nást milli aðilanna þar að lútandi.
„Þannig telja Nova hf. og Sýn hf. að unnt verði að reka RAN kerfi þeirra sem eitt sameiginlegt RAN kerfi, meðal annars á grundvelli þeirra efnisatriða, sem fram koma í samkomulaginu.“
Samkvæmt samkomulaginu, sem undirritað var í dag, hafa Nova og Sýn ákveðið að vinna áfram að undirbúningi þess að framselja dreifikerfi sín – þar með talið allan 4G og 5G fjarskiptabúnað sem nú er í eigu aðilanna og tengist RAN kerfinu, þ.e. senda, loftnet, varaafl og annan tilheyrandi og sérhæfðan búnað – til Sendafélagsins sem endurgjald fyrir hlutafé í Sendafélaginu og með sölu til Sendafélagsins gegn greiðslufresti með hluthafaláni (eigendaláni).
Stefna á að ljúka samningsgerð innan 10 vikna
Samkvæmt samkomulaginu, sem undirritað var í dag, hafa Nova og Sýn sett sér það markmið að ljúka gerð endanlegra samninga sín í milli og við Sendafélagið innan 10 vikna frá undirritun samkomulagsins.
Í fyrirhuguðum samningum verður nánar kveðið á um framsal Nova og Sýnar á umræddum eignum inn í Sendafélagið, eignarhlutföll aðila, þá þjónustu sem Sendafélagið mun veita þeim og á hvaða kjörum þjónustan verði veitt og önnur nauðsynleg atriði.
Þá er fyrirhugað að aðilar muni gera með sér hluthafasamkomulag varðandi ýmis atriði tengd stjórnarháttum Sendafélagsins, en samkvæmt samkomulaginu munu Nova og Sýn hafa jöfn yfirráð yfir Sendafélaginu, þrátt fyrir að eignarhluföll verði ekki jöfn.
Bæði félög tilgrein áætluð fjárhagsleg áhrif á rekstur þeirra í kauphallartilkynningu. Nálgast má tilkynningu Sýnar hér og Nova hér.
Þess má geta að Sýn hafði gefið til kynna á markaðsdegi í nóvember 2024 að til skoðunar væri frekari samnýting innviða með Nova í gegnum Sendafélagið. Þar var einnig talað um að skoðað yrði samnýting á sjónvarpskerfum í takt við það sem gert hefur verið í farneti í gegnum Sendafélagið síðustu árin.
Þá tilkynnti Nova í febrúar síðastliðnum um stofnun sérstaks innviðafélags um lykilinnviði, dreifikerfi og stofnet.
