Vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar og þeirra miklu efnahagsáhrifa sem hann hefur haft í för með sér var fjármálareglum sveitarstjórnarlaga vikið til hliðar til ársins 2026. Reglurnar eru tvær. Annars vegar skal jafnvægi ríkja milli tekna og útgjalda Aog B-hluta hvers sveitarfélags á hverju þriggja ára tímabili. Hins vegar skulu skuldir að frádregnum veltufjármunum og lífeyrisskuldbindingum til 15 ára eða lengur, auk leiguskuldbindinga frá ríkissjóði ef þeim er að skipta – svokallað skuldaviðmið – ekki nema yfir 150% af tekjum.

Í samræmi við samkomulag sem undirritað var milli fjármálaráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS) í nóvember síðastliðnum stefna fjárhagsáætlanir sveitarfélaganna að því að heildarafkoma sveitarfélaga landsins batni úr -1,1% vergrar landsframleiðslu í -0,4% fram til ársins 2026, og skuldir hækka úr 6,9% landsframleiðslu í 8,5%. Samkomulag er enn fremur um að skuldir hækki ekki á þann mælikvarða eftir það.

Sjá einnig: Hóflegur afgangur í ár

Í umsögn SÍS um fjárlagafrumvarpið frá því í desember er það sagt viðbúið að einhver sveitarfélög kunni að vera á skjön við reglurnar þegar reglurnar taka aftur gildi árið 2026. Sambandið segir ekki liggja fyrir með hvaða hætti skuli tekist á við það, en „nauðsynlegt [kunni] að vera að veita framlög úr ríkissjóði til sveitarfélaga sem höllum fæti standa“.

Skuldaviðmið borgarinnar í 150% 2025
Skuldaviðmið Reykjavíkurborgar var 102% í lok síðasta árs, en gert er ráð fyrir að það hækki í um og yfir 150% fram að árinu 2025, og taki þá að lækka á ný. Skuldir Orkuveitu Reykjavíkur, sem telja með hlutfallinu frá þessu ári, vega þar hins vegar þungt. Skuldahlutfall Reykjavíkurborgar, skuldir og skuldbindingar sem hlutfall tekna, nam ríflega 200% í lok síðustu tveggja ára, en Í fjárhagsáætlun 2022-2026 frá því í haust gerir borgin ráð fyrir að hlutfallið verði komið í 169% árið 2026.

Nánar tiltekið er gert ráð fyrir að skuldir aukist lítillega, úr 403 milljörðum í lok síðasta árs í 448 milljarða í lok árs 2026, en tekjur aukist mun hraðar, úr 200 milljörðum í 265. Þó skal tekið fram að tölurnar eru á breytilegu verðlagi, og miðað við 2,5% verðbólgu – sem verður að teljast bjartsýnt þessa dagana – yrðu skuldir í árslok 2026 komnar niður í 396 milljarða á verðlagi dagsins í dag.

Bæði skuldaviðmið og skuldahlutföll annarra sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins eru og verða mun lægri en borgarinnar.

Skuldahlutföll
Skuldahlutföll

Borgin og Garðabær með hæstu eiginfjárhlutföllin
Sé horft á eiginfjárhlutfall stendur borgin nokkuð vel í samanburði við minni sveitarfélögin í kring. Aðeins Garðabær sló henni við í lok áranna 2020 og 2021 með 51% og 49% hlutfall, en borgin stóð í 47% bæði árin. Í lok þessa árs er hins vegar áætlað að hlutfall Garðabæjar falli í 45%, undir þau 46% sem borgin áætlar.

Hafnarfjörður hefur rekið lestina síðustu ár með um fjórðungshlutfall, en mun skríða yfir Mosfellsbæ með einu prósentustigi í lok þessa árs með 27% ef áætlanir standast. Kópavogur og Seltjarnarnes feta svo milliveginn með á bilinu 36% og 43% hlutfall á þessu og síðustu árum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .