Orkuveita Reykjavíkur (OR) stefnir að því að selja 6,8% eignarhlut sinn í Landsneti á fyrri hluta þessa árs. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi OR. Eignarhluturinn var metinn á 5,6 milljarða króna í árslok 2022.
„Undanfarin misseri hefur verið stefnt að sölu eignarhlutar Orkuveitu Reykjavíkur í Landsneti, þar sem í raforkulögum er kveðið á um að flutningsfyrirtækið skuli vera í beinni eigu íslenska ríkisins og/eða sveitarfélaga.“
Í árslok 2020 samþykkti OR að viljayfirlýsing um breytingu á eignarhaldi Landsnets yrði undirrituð og að ganga til viðræðna um sölu eignarhlutarins. Orkuveitan segir að væntingar um sölu á 6,8% eignarhlutnum í Landsneti í fyrra hafi ekki gengið eftir á árinu en stefnt sé að sölunni á fyrri hluta ársins 2023.
Orkuveitan bókfærði 6,8% eignarhlut sinn í Landsneti á 5.632 milljónir í árslok 2022 en samstæðan studdist við verðmat sem framkvæmt var af óháðum þriðja aðila auk mats sérfræðinga innan OR. Gangvirði eignarhlutarins í Landsneti lækkaði um 463 milljónir á milli ára.
Ríkissjóður náði samkomulagi í lok síðasta árs við Landsvirkjun, Rarik og Orkubú Vestfjarða um kaup á 93,2% eignarhlut ríkisfyrirtækjanna í Landsneti fyrir um 63 milljarða króna. Orkuveitan segir að fjármálaráðuneytið hafi viljað klára framangreinda samninga áður en gengið væri frá kaupum á hlut OR í Landsneti.
Í tilkynningu fjármálaráðuneytisins var vísað til orkustefnu stjórnvalda til ársins 2050 þar sem lýst er yfir að mikilvægt sé að koma Landsneti alfarið í beina opinbera eigu og að hlutlaust eignarhald sé grundvöllur gagnsæis og jafnræðis á raforkumarkaði.