Akraneskaupstaður og fyrirtækið Transition Labs, sem Davíð Helgason og Kjartan Örn Ólafsson stofnuðu, hafa samþykkt að kanna grundvöll þess að ráðist verði í uppbyggingu svokallaðs Loftslagsgarðs, athafnasvæðis með þyrpingu fyrirtækja í loftslagstengdri starfsemi, í sveitarfélaginu.

Bærinn mun taka frá landsvæði fyrir Loftslagsgarðinn sem Transition Labs hefur einkarétt á að nýta til ákveðins tíma á meðan deiliskipulag svæðisins er útfært og möguleikar eins og orkutengingar eru kannaðir nánar, að því er kemur fram í tilkynningu‏‏‏‏‏‏.

Landsvæðið sem um ræðir er um 51 hektari að stærð og er staðsett í Garðaflóa, ofan við núverandi íbúðabyggð á Akranesi.

„Markmiðið er að raða saman fyrirtækjum sem geti samnýtt grunninnviði jafnvel þótt þau starfi sjálfstætt. Þegar fram líða stundir gæti svæðið tengst þeim græna iðngarði sem þegar er í uppbyggingu í Flóahverfi og notið nálægðar við hann. Miðað verður við að öll atvinnusvæðin sem eru norðan þjóðvegarins á Akranesi myndi stórt samfélag fyrirtækja í grænni starfsemi.“

Leita uppi loftslagsverkefni

Transition Labs mun leita uppi og semja við aðila sem gætu haft áhuga á að starfa í Loftslagsgarðinum. Fyrirtækið vinnur með erlendum loftslagsverkefnum og sérhæfir sig í að byggja þau upp á stórum skala hér á landi og skapa þannig fyrirmynd að frekari vexti þeirra á alþjóðavettvangi.

„Fyrirtækin í Loftslagsgarðinum gætu ýmist verið fyrirtæki sem vinna með beinum hætti að föngun og bindingu kolefnis eða nútímaleg græn framleiðslufyrirtæki sem leysa af hólmi skítugar virðiskeðjur og hafa þannig jákvæð áhrif í loftslagsbaráttunni.“

Nú þegar starfar bandaríska loftslagsfyrirtækið Running Tide við að rækta þörungagró á Akranesi, en Transition Labs undirbjó komu félagsins til landsins og stýrði fyrstu stigum uppbyggingar.

Skapi tugi sérfræðistarfa

Í tilkynningunni segir að ‏þó málið sé enn á könnunarstigi þá sé horft til þess að starfsemin geti skapað tugi starfa í fyrsta áfanga fyrir fólk með sérfræðiþekkingu á ýmsum sviðum, s.s. starfsfólk í framleiðslu, tæknifólk, stjórnendur og vísindafólk m.a. á sviði náttúruvísinda.

Þá megi gera ráð fyrir nokkrum aðflutningi erlendra sérfræðinga á svæðið, bæði til langs og skemmri tíma „sem skapar tækifæri til frekari þekkingar- og verðmætasköpunar“.

„Framsýni Akraneskaupstaðar í loftslagsmálum og frumkvæði til grænnar atvinnuuppbyggingar fyllir okkur bjartsýni um að samstarfið verði gæfuríkt. Það sem Transition Labs sérhæfir sig í er að finna bestu verkefnin á sviði loftslagmála en við lýsum okkur gjarnan sem einhvers konar ljósmóður fyrir loftslagsiðnað framtíðarinnar. Við þróum ekki okkar eigin loftslagsverkefni heldur er áherslan okkar á að aðstoða aðra loftslagsfrumkvöðla við að fæða sín verkefni inn í heiminn; hratt og örugglega, og fjarlægja hindranir sem geta verið til staðar. Við hlökkum til að fara í þá vegferð með Akraneskaupstað og kanna það spennandi tækifæri sem uppbygging loftslagsgarðs í Garðaflóa gæti verið,” segir Kjartan Örn Ólafsson, framkvæmdastjóri Transition Labs.

„Við á Akranesi erum afar spennt fyrir því að geta stuðlað að uppbyggingu samfélags loftslagsfyrirtækja sem munu vonandi þegar fram í sækir geta haft áhrif í loftslagsbaráttunni. Við erum spennt fyrir samstarfinu með Transition Labs sem hafa þegar hafið samstarf við sum af metnaðarfyllstu loftslagsverkefnum heims og starfa með leiðandi loftslagsfjárfestum. Vinna við gerð deiliskipulags er þegar hafin og var skipulagslýsing samþykkt í bæjarstjórn í síðustu viku. Samkomulagið sem við höfum undirritað nær til þróunar, skipulags og úthlutunar lóða og ef við náum að þróa málið af könnunarstigi þá geta orðið til afar spennandi og fjölbreytt störf sem munu jafnframt geta haft margskonar jákvæð hliðaráhrif á samfélagið á Akranesi,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, fráfarandi bæjarstjóri á Akranesi.

Fulltrúar Transition Labs og Akraneskaupstaðar.