Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs Landsbankans, ræðir um útibúnet bankans í nýútgefinni ársskýrslu. Hún segir að þótt bankaþjónusta hafi breyst og sífellt stærri hluti af þjónustunni fari fram á netinu, sé þörfin fyrir persónulega ráðgjöf og þjónustu enn til staðar.
„Sérstaða Landsbankans felst meðal annars í því að við erum þar sem viðskiptavinir okkar eru,“ segir Helga Björk. „Okkar stefna hefur því verið að halda áfram að reka útibú og afgreiðslur í samfélögum um allt land, þar sem forsendur eru fyrir slíkum rekstri.“
Með fleiri útibú heldur en Íslandsbanki og Arion til samans
Landsbankinn rekur fleiri útibú heldur en Íslandsbanki Arion banki til samans. Samkvæmt nýbirtum ársreikningum bankanna er Landsbankinn með 35 útibú, Íslandsbanki með 12 útibú og Arion banki með 13 útibú. Á töflunni að neðan má sjá þróun á fjölda útibúa bankanna.
„Við erum hluti af samfélaginu og við sýnum það í verki. Það hefur sýnt sig að fólk og fyrirtæki kunna vel að meta þessa stefnu. Markaðshlutdeild okkar á einstaklingsmarkaði um allt land hefur farið hækkandi. Hún mælist nú yfir 40% á landsvísu og hún er enn hærri á landsbyggðinni eða tæplega 46%,“ segir Helga Björk.
Styðja sig við fjarfundi í auknum mæli
Hún segir þó að tækninýjunar hafi leitt til breytinga á því hvernig Landsbankinn veiti þjónustu og ráðgjöf. Bankinn styðji sig við fjarfundi í auknum mæli til að veita viðskiptavinum þjónustu.
„Þannig nýtum við þá miklu sérfræðiþekkingu sem býr í starfsfólki bankans, störfin í útibúunum úti á landi verða fjölbreyttari, biðin eftir ráðgjöf og þjónustu verður styttri og þjónustan betri.“
Hún tekur Landsbankann á Akureyri sem dæmi. Þar starfa nú rúmlega 30 manns, um helmingur við þjónustu í útibúinu og um helmingur í þjónustuveri sem þjónar viðskiptavinum um allt land.
„Útibúið okkar á Akureyri er stærsta bankaútibúið utan höfuðborgarsvæðisins og starfsemin þar er öflug, eins og meðal annars sést á hárri markaðshlutdeild bankans á svæðinu.“