Samkvæmt kosningavita Viðskiptaráðs er afstaða stjórnmálaflokkanna til efnahagslegs frelsis afar misjöfn.
Áttavitinn varpar ljósi á stefnu allra stjórnmálaframboða á landsvísu út frá tveimur þáttum: efnahagslegu frelsi og skýrleika stefnu.
Til að kortleggja stefnu framboðanna lagði Viðskiptaráð kosningakönnun fyrir flokkana sem innihélt sextíu fullyrðingar.
Fimm svarmöguleikar voru við hverri fullyrðingu: mjög fylgjandi, frekar fylgjandi, hlutlaus, frekar andvíg og mjög andvíg.
Jafnframt gafst framboðunum færi á að láta skýringu fylgja hverju svari.
Samkvæmt niðurstöðu áttavitans er stefna Viðreisnar óskýrust á meðan Vinstri grænir eru langmest á móti efnahagslegu frelsi en Sósíalistaflokkur Íslands svaraði ekki spurningum Viðskiptaráðs.
Athygli vekur að Viðreisn er á móti því að lækka bankaskatt og þá skilar flokkurinn auðu um hvort lækka eigi fjármagnstekjuskatt eða tekjuskatt á lögaðila.
Þá er flokkurinn einnig hlynntur því að ganga lengra en Evrópusambandið í loftslagsmálum og vill halda í jafnlaunavottun, ólíkt öðrum flokkum á hægri ásnum.
Þá er Miðflokkurinn eini flokkurinn sem skilaði auðu um hvort selja ætti hlut í Landsvirkjun.
Samfylkingin er síðan í takti með Vinstri grænum og Pírötum í flestum frelsismálum. Samfylkingin leggst gegn því að lækka fjármagnstekjuskatt og tekjuskatt á lögaðila.
Vinstri grænir, Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn eru síðan einu flokkarnir sem vilja halda í tolla á matvæli.
Samfylkingin, Píratar, Vinstri grænir og Framsókn vilja síðan halda í kostnað ríkissjóðs við endurgreiðslur til kvikmyndagerðar. Sömu flokkar vilja einnig að ríkið sjái enn þá um rekstur áfengisverslana.
Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkurinn skera sig úr þegar kemur að helstu frelsismálum fyrir einstaklinga og fyrirtæki í landinu. Samkvæmt niðurstöðunum er Sjálfstæðisflokkurinn þó ögn hlynntari efnahagslegu frelsi og með skýrari stefnu.
Sjá má niðurstöðurnar hér að neðan.