Terence Reilly er maðurinn sem breytti Crocs úr „afaskóm“ yfir í tískuflík og Stanley brúsum úr hefðbundnu drykkjaríláti yfir í ómissandi fylgihlut fyrir Tiktok-kynslóðina. Nú reynir hann enn á ný að draga kanínu upp úr hattinum eftir að hafa sagt starfi sínu lausu hjá Stanley til að taka við sem vörumerkjastjóri skóframleiðandans HeyDude, sem er einmitt í eigu Crocs.
HeyDude framleiðir og selur mjúka og þægilega skó en Crocs festi kaup á félaginu fyrir 2,5 milljarða dala árið 2022. Á tíma Reilly hjá Stanley tífölduðust tekjur félagsins. Rekstur HeyDude gekk fyrst um sinn ágætlega eftir að Crocs tók yfir félagið en síðar fór að síga á ógæfuhliðina er hægjast tók á sölunni.
Var Reilly því fenginn til að snúa aftur á kunnuglegar slóðir til að snúa þessari þróun við. Hann kveðst ætla að leggja áherslu á að gera HeyDude vörumerkið aðlaðandi fyrir yngri kynslóðirnar, þá sérstaklega ungar konur.
Hann kveðst ná að halda tengslum við yngri kynslóðir með því að hlusta á það sem brennur á yngra samstarfsfólki, auk þess að fylgjast vel með ungum og upprennandi tónlistarstjörnum á Spotify.