Fyrirtækið North Tech Energy ehf. (NTE) hefur unnið í meiri en áratug að hugmynd um að byggja jarðvarmavirkjun úti á hafspalli. Stofnandi og framkvæmdastjóri NTE, Geir Hagalínsson, sagði frá verkefninu í viðtali við Viðskiptablaðið árið 2022, þar sem hann líkti hugmyndinni við að skella einni Hellisheiðarvirkjun ofan á Troll, stærsta borpall Norðmanna.
NTE fékk leyfi frá Orkustofnun árið 2017 til leitar og rannsókna á jarðhita á rannsóknarsvæðum við Reykjaneshrygg og nálægt Grímsey. Árið 2022 fékk NTE endurnýjað leyfi til leitar á svæðunum fram til árslok 2026.
Geir - sem er í viðtali í Viðskiptablaði vikunnar vegna systurfyrirtækisins North Tech Drilling – segir að verkefnið í tengslum við jarðvarmavirkjun úti á hafspalli sé enn í farvegi og félagið sé komið erlenda samstarfsaðila við rannsóknir á þessum svæðum, m.a. til staðsetja borholur.
Til lengri tíma þurfi hins vegar að tryggja verkefninu fjármögnun sem sé krefjandi fyrir áhættuverkefni af þessari stærðargráðu.
Hann nefnir hins vegar að verkefnið hafi vakið athygli aðila sem framleiða eða stefna á framleiðslu rafeldsneytis, t.d. græns ammoníaks, metanóls eða vetni. Einn verðandi samstarfsaðili sérhæfi sig einnig í sjálfbæru flugeldsneyti.
„Ísland hefur ekki átt rafmagn í svona framleiðslu, það hefur nú bara sýnt sig að undanförnu. Ef við ætlum að byggja upp gagnaver, framleiða rafeldsneyti og nota í það endurnýjanlega orku þá þurfum við bara að byrja að virkja. Ég vil hins vegar ekki virkja á landi, ég vil bara vera úti á hafi þar sem við erum ekki fyrir neinum.“
Fréttin er hluti af ítarlegu viðtali við Geir í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudaginn, 15. janúar 2025.