Endan­leg talning liggur ekki fyrir en allt bendir til þess að Halla Tómas­dóttir verði sjöundi for­seti lýð­veldisins Ís­lands.

Sam­kvæmt nýjustu tölum um sex­leytið í morgun leiddi Halla alla fram­bjóð­endur með um 32% fylgi á meðan Katrín Jakobs­dóttir, fyrr­verandi for­setis­ráð­herra, var með 25% at­kvæði á lands­vísu.

„Mér sýnist nú bara allt stefna í að Halla Tómas­dóttir verði næsti for­seti Ís­lands og ég bara óska henni hjartan­lega til hamingju með það,” sagði Katrín í sam­tali við mbl.is í nótt.
Loka­tölur bárust úr báðum kjör­dæmum í Reykja­vík rétt eftir klukkan 6 í morgun en kjör­sókn í Reykja­vík norður var 78,5% sem er ör­lítið minna en í Reykja­vík suður, 79,3%.

Halla Tómas­dóttir fékk 11.559 at­kvæði, eða 31,2% at­kvæða. Katrín Jakobs­dóttir fékk 10.319 at­kvæði, eða 27,9% at­kvæða.

Þá fékk Halla Hrund Loga­dóttir 4.935 at­kvæði, eða 13,3%, og Jón Gnarr fékk 4.109 at­kvæði, eða 11,1%. Baldur Þór­halls­son fékk 3.366 at­kvæði, eða 9,1%.

Í sam­tali við mbl.is sagði Halla Tómas­dóttir í nótt að henni liði ó­trú­lega vel þó loka­tölur væru ekki enn komnar.

„Ég veit að þetta er ekki búið fyrr en þetta er búið. Þannig að ég er líka bara að reyna að vera ró­leg og anda ofan í magann,“ segir Halla við mbl.is.