Endanleg talning liggur ekki fyrir en allt bendir til þess að Halla Tómasdóttir verði sjöundi forseti lýðveldisins Íslands.
Samkvæmt nýjustu tölum um sexleytið í morgun leiddi Halla alla frambjóðendur með um 32% fylgi á meðan Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsetisráðherra, var með 25% atkvæði á landsvísu.
„Mér sýnist nú bara allt stefna í að Halla Tómasdóttir verði næsti forseti Íslands og ég bara óska henni hjartanlega til hamingju með það,” sagði Katrín í samtali við mbl.is í nótt.
Lokatölur bárust úr báðum kjördæmum í Reykjavík rétt eftir klukkan 6 í morgun en kjörsókn í Reykjavík norður var 78,5% sem er örlítið minna en í Reykjavík suður, 79,3%.
Halla Tómasdóttir fékk 11.559 atkvæði, eða 31,2% atkvæða. Katrín Jakobsdóttir fékk 10.319 atkvæði, eða 27,9% atkvæða.
Þá fékk Halla Hrund Logadóttir 4.935 atkvæði, eða 13,3%, og Jón Gnarr fékk 4.109 atkvæði, eða 11,1%. Baldur Þórhallsson fékk 3.366 atkvæði, eða 9,1%.
Í samtali við mbl.is sagði Halla Tómasdóttir í nótt að henni liði ótrúlega vel þó lokatölur væru ekki enn komnar.
„Ég veit að þetta er ekki búið fyrr en þetta er búið. Þannig að ég er líka bara að reyna að vera róleg og anda ofan í magann,“ segir Halla við mbl.is.