Út­gáfa kín­verskra Dim sum-skulda­bréfa, sem gefin eru út í júönum utan megin­lands Kína, stefnir í met­ár árið 2025.

Ástæðan eru hagstæð vaxta­kjör í Kína sem gera gjald­miðilinn aðlaðandi fyrir alþjóð­leg fyrir­tæki á sama tíma og mörg þeirra eru að draga úr vægi dollara í fjár­mögnun sinni.

Samkvæmt Financial Times hafa það sem af er ári verið gefin út skulda­bréf í júan að and­virði 475 milljarða júana (um 66 milljarðar Bandaríkja­dala), sem þýðir að árið er þegar á góðri leið með að slá met síðasta árs.

Sér­fræðingar búast við áfram­haldandi aukningu á út­gáfu skulda­bréfa þar sem lágt vaxta­stig í Kína veitir fyrir­tækjum tækifæri til að fjár­magna sig á mun hagstæðari kjörum en í Bandaríkjunum eða Evrópu.

Sam­kvæmt sér­fræðingum hjá JP­Morgan eru nú meiri við­skiptaum­svif milli Asíuríkja og Kína en milli Kína og Bandaríkjanna, sem eykur eftir­spurn eftir júanum sem við­skipta­mynt og þar með eftir júan-skulda­bréfum.

Á meðal stór­fyrir­tækja sem hafa nýtt sér þennan mögu­leika á árinu eru fjár­festingafélagið Te­ma­sek í Singa­púr, bandaríski vá­trygginga­risinn Chubb og sviss­neski mat­væla­risinn Nest­lé.

Kostnaður við að gefa út skuldir í júan er veru­lega lægri en í dollurum. Meðal­vaxta­kjör „Dim sum“-skulda­bréfa eru nú 1,83% á móti tæpum 5% fyrir dollar­skuldir. Fyrir­tæki geta því jafn­vel gefið út skuldir í júan, breytt þeim í aðra mynt og samt sem áður fengið hagstæðari kjör en ella.

Einnig eru minni tak­markanir á flutningi fjár­magns sem aflað er með skulda­bréfaút­gáfum í Hong Kong, þar sem þessi bréf eru gefin út, en gilda um fjár­magn sem kemur frá megin­landi Kína.

Mikil eftir­spurn kín­verskra fjár­festa hefur einnig aukið vöxt markaðarins. Svo­nefnt Bond Connect-kerfi, sem gerir fjár­festum kleift að kaupa skulda­bréf í Hong Kong, var stækkað í júní þannig að meðal annars tryggingafélög fá nú að taka þátt. Áætlað er að ár­legt há­mark við­skipta í gegnum kerfið verði tvöfaldað í eina billjón júana á þessu ári.

Heitið „Dim sum“ kemur til af því að skulda­bréfin eru að mestu leyti gefin út í Hong Kong, þar sem dim sum-réttir eru vinsælir í kantónskri matar­gerð.

Skulda­bréfin eru gefin út í kín­verskum júan en utan megin­lands Kína og eru því sveigjan­legri fyrir alþjóð­lega fjár­festa sem vilja fjár­festa í kín­verskum gjald­miðli en án þess að vera háðir reglu­verki megin­landsins.

Þó að þessi markaður sé enn lítill miðað við skulda­bréfa­markað megin­landsins er hann talinn skipta sí­fellt meira máli þar sem alþjóð­legir fjár­festar leita leiða til að dreifa áhættu sinni og minnka vægi dollara í eignasöfnum sínum.