Fyrirséður er stórfelldur skortur á leigubílum í sumar en mikið brottfall varð úr stétt leigubílstjóra í faraldrinum. Leyfum hefur ekki fjölgað að neinu ráði í tæp 30 ár en í byrjun mánaðarins lagði innviðaráðherra í þriðja sinn fram frumvarp til nýrra heildarlaga um leigubifreiðaakstur. Verði frumvarpið að lögum verða fjöldatakmarkanir afnumdar.
Brottfall í faraldrinum
Allt of fáir leigubílar eru til taks á höfuðborgarsvæðinu að sögn Guðmundar Barkar Thorarensen, framkvæmdastjóra leigubílastöðvarinnar BSR. Hann segir skortinn sérlega slæman nú þegar öllum sóttvarnartakmörkunum hafi verið aflétt. Töluvert brottfall hafi átt sér stað innan stéttarinnar eftir að Covid heimsfaraldurinn skall á, enda hafi faraldurinn valdið hruni í eftirspurn eftir þjónustu leigubíla. Hann segir suma þeirra bílstjóra sem þurftu frá að hverfa ekki hafa skilað sér til baka.
„Brottfallið úr stéttinni var ábyggilega um 30% og þegar fólk er búið að vera í hálfgerðu atvinnuleysi í marga mánuði í röð er það því miður staðreynd að ákveðinn hluti af þeim hópi nær sér ekki af stað á ný."
Guðmundur segir þó að bera hafi farið á skortinum löngu fyrir faraldurinn. Akstur leigubíla er leyfisskyldur og bendir hann á að útgefnum leyfum hafi ekki fjölgað að neinu ráði í á þriðja áratug þrátt fyrir að íbúum og ferðamönnum hafi fjölgað verulega.
Í lokaskýrslu starfshóps um heildarendurskoðun á leigubifreiðakerfinu, sem er grunnur fyrrnefnds frumvarps um leigubifreiðaakstur, er einmitt bent á að atvinnuleyfum hafi ekki fjölgað að ráði frá árinu 1995, þegar stjórnvöld settu þak á fjölda atvinnuleyfa á tilteknum svæðum. Það ár voru atvinnuleyfi á höfuðborgarsvæðinu 570. Fjöldinn var síðan lengi 560 atvinnuleyfi en haustið 2017 var atvinnuleyfum á höfuðborgarsvæðinu fjölgað í 580. Árið 1995 voru Íslendingar alls tæplega 267 þúsund talsins en í ár eru landsmenn orðnir tæplega 369 þúsund í heildina. Árið 1995 heimsóttu 190 þúsund ferðamenn Ísland en ferðamennirnir voru orðnir hátt í 2,5 milljónir er best lét árið 2018.
Guðmundur telur að miðað við stöðuna í dag þurfi að fjölga útgefnum leyfum um 100 til 200 svo að jafnvægi náist á leigubílamarkaði. Meta þurfi síðan þörfina í samræmi við þær væntingar sem uppi séu um ferðamannafjölda hverju sinni.
Stefnir í stórfelldan skort í sumar
Guðmundur segir vel hafa gengið hjá BSR að anna eftirspurn í byrjun árs, enda um 20 þúsund manns verið í sóttkví eða einangrun á degi hverjum og heilt yfir frekar lítið af ferðamönnum á landinu. Aftur á móti hafi róðurinn þyngst í febrúar.
„Mun færri voru í sóttkví eða einangrun, slakað var á sóttvarnartakmörkunum og ferðamönnum fór fjölgandi. Því fór að bera á verulegum skorti á leigubílum og seinni hluti febrúar og byrjun mars hafa verið sérlega slæmir. Bæði vegna aukinnar eftirspurnar og vegna framtaksleysis Reykjavíkurborgar við snjómokstur."
Guðmundur kveðst í ljósi þess að skortur hafi verið á leigubílum í febrúar og mars vera uggandi yfir stórfelldum leigubílaskorti sem muni fyrirsjáanlega myndast í sumar. „Maður getur rétt ímyndað sér hvernig ástandið verður næsta sumar þegar allir ferðamennirnir mæta." Samkvæmt Þjóðhagsspá Íslandsbanka má gera ráð fyrir að 1,1-1,2 milljónir ferðamanna heimsæki Ísland á árinu.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .