Kon­ráð S. Guðjóns­son, hag­fræðingur og fyrrum efna­hags­ráðgjafi ríkis­stjórnarinnar, segir að stefnu­yfir­lýsing nýrrar ríkis­stjórnar kosti um 77 milljarða króna.

Ný ríkis­stjórn hefur lofað að bæta af­komu ríkis­sjóðs á sama tíma og ráðast í kostnaðarsöm verk­efni, án teljan­legra skatta­hækkana.

Að mati Kon­ráðs verður þetta hægara sagt en gert þar sem áætlað er að halli ríkis­sjóðs sé áætlaður um 63 milljarðar í ár.

„Það er hægara sagt en gert að setja verðmiða á stefnu­yfir­lýsingu ríkis­stjórnarinnar. Það er engu að síður mjög mikilvægt fyrir sam­hengi hlutanna og til að átta sig á verk­efnum ríkis­stjórnarinnar,“ skrifar Kon­ráð á vefsíðu sinni Ráðdeildin.

Konráð segir að 77 milljarða króna matið sé varfærið en ljóst er að ríkis­stjórnin þarf að brúa þarf bilið með því að hætta að verja 77 milljörðum annars staðar eða treysta á mjög mikinn hag­vöxt á sama tíma og mark­miðið er bein­línis að draga úr þenslu svo að lækka megi vexti.

Hér að neðan má sjá útreikninga Konráðs en taflan talar sínu máli.

„Þetta er planið, en síðan gerist lífið. Ég ætla að gerast svo djafur að lofa því að upp komi mál sem bregðast þarf við með auknum út­gjöldum. Það hefur verið reynslan hingað til eins og síðasta ríkis­stjórn fékk ræki­lega að finna fyrir með heims­far­aldri og elds­um­brotum. Sumt er jafn­vel nokkuð fyrir­sjáan­legt eins og öryggis- og varnar­mál þar sem út­gjöld okkar eru pín­lega lág eða 0,1% af lands­fram­leiðslu. Fram­kvæmda­stjóri NATO sagði ný­lega að þau þurfi að vera hærri en 2% og Trump hefur talað um 5% (50-falt hærri en út­gjöld okkar í dag)” skrifar Kon­ráð.

Kon­ráð bendir á að vandi stjórnarinnar er hins vegar sá að nýjustu áætlanir ráðu­neytisins gera ráð fyrir um 30 milljarða króna halla 2029 og er þá ekki tekið til­lit til 9 milljarða óút­færðra af­komu­bætandi ráð­stafana.

Þegar við bætist svo stefnu­yfir­lýsingin upp á 77 milljarða króna er bilið sem þarf að brúa í halla­laus fjár­lög orðið um 120 milljarðar króna.

Það er ríf­lega 8% af út­gjöldum ríkis­sjóðs eða 2,5% af lands­fram­leiðslu. Fjár­hæð sem sam­svarar rekstri Land­spítalans í heilt ár.

„Eðli­lega er mörgum spurningum ósvarað. Viðreisn, sem fer með stjórnar­taumana í sjálfu fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neytinu, talaði nokkuð óljóst um hag­ræðingu í kosninga­baráttunni. Nefnd var sam­eining stofnana, sem getur skilað hundruðum milljóna, jafn­vel nokkrum milljörðum. Ljóst er að miklu, miklu meira þarf til. Sjálfur hjó ég eftir tvennu frá for­ma flokksins í kosninga­baráttunni sem kom smá spánskt fyrir sjónir. Annars vegar að spara með því að greiða niður er­lendar skuldir. Er­lendar skuldir ríkis­sjóðs bera reyndar lægri vexti en þær inn­lendu og til þess að greiða þær niður án inn­lendrar skuld­setningar á móti þarf að bæta af­komuna með því að ná fram af­gangi á ríkis­sjóði. Ef það er ekki mark­miðið er bein­línis verið að leggja til að dregið verði úr gjald­eyris­forða Seðla­bankans, sem er­lend lán ríkisins fjár­magna að tals­verðu leyti. Slíkt væri aftur á móti til þess fallið að draga úr gengis­stöðug­leika sem gengur beint gegn grund­vallar­stefnu Viðreisnar.”

Kon­ráð segir nýja ríkis­stjórn standa frammi fyrir tveimur lykil­spurningum: 1) Hefur ríkis­stjórnin aga og kjark í að hætta verk­efnum sem nema tugum milljarða króna? 2) Mun al­menningur sýna ríkis­stjórninni þolin­mæði svo af því verði eða því að lítið verði úr metnaðar­fullri stefnu­yfir­lýsingu?

„Svo það sé sagt verður mjög spennandi að sjá hvernig nýrri ríkis­stjórn tekst til og þá sér­stak­lega við stjórn ríkis­fjár­málanna. Af framan­greindu er ljóst að markið er sett hátt og mikið þarf til að jafnan gangi upp. Hér er að sjálfsögðu lítið nýtt á ferðinni að því leyti að stjórnarsátt­málar og stefnu­yfir­lýsingar inni­halda oft stórar hug­myndir sem erfitt reynist að hrinda í fram­kvæmd,” skrifar Konráð.

Að lokum segir Konráð að pólitík sé list hins mögulega en það megi kannksi segi að pólitík sé frekar list hins ómögu­lega þegar tugi milljarða eða meira vantar upp á í ríkis­fjár­málunum?

„Það verður spennandi að sjá og ég vona að val­kyrjunum og föru­neyti þeirra takist vel til, það skiptir okkur öll gríðar­lega miklu máli,” skrifar Konráð að lokum.