Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur og fyrrum efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar, segir að stefnuyfirlýsing nýrrar ríkisstjórnar kosti um 77 milljarða króna.
Ný ríkisstjórn hefur lofað að bæta afkomu ríkissjóðs á sama tíma og ráðast í kostnaðarsöm verkefni, án teljanlegra skattahækkana.
Að mati Konráðs verður þetta hægara sagt en gert þar sem áætlað er að halli ríkissjóðs sé áætlaður um 63 milljarðar í ár.
„Það er hægara sagt en gert að setja verðmiða á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Það er engu að síður mjög mikilvægt fyrir samhengi hlutanna og til að átta sig á verkefnum ríkisstjórnarinnar,“ skrifar Konráð á vefsíðu sinni Ráðdeildin.
Konráð segir að 77 milljarða króna matið sé varfærið en ljóst er að ríkisstjórnin þarf að brúa þarf bilið með því að hætta að verja 77 milljörðum annars staðar eða treysta á mjög mikinn hagvöxt á sama tíma og markmiðið er beinlínis að draga úr þenslu svo að lækka megi vexti.
Hér að neðan má sjá útreikninga Konráðs en taflan talar sínu máli.
„Þetta er planið, en síðan gerist lífið. Ég ætla að gerast svo djafur að lofa því að upp komi mál sem bregðast þarf við með auknum útgjöldum. Það hefur verið reynslan hingað til eins og síðasta ríkisstjórn fékk rækilega að finna fyrir með heimsfaraldri og eldsumbrotum. Sumt er jafnvel nokkuð fyrirsjáanlegt eins og öryggis- og varnarmál þar sem útgjöld okkar eru pínlega lág eða 0,1% af landsframleiðslu. Framkvæmdastjóri NATO sagði nýlega að þau þurfi að vera hærri en 2% og Trump hefur talað um 5% (50-falt hærri en útgjöld okkar í dag)” skrifar Konráð.
Konráð bendir á að vandi stjórnarinnar er hins vegar sá að nýjustu áætlanir ráðuneytisins gera ráð fyrir um 30 milljarða króna halla 2029 og er þá ekki tekið tillit til 9 milljarða óútfærðra afkomubætandi ráðstafana.
Þegar við bætist svo stefnuyfirlýsingin upp á 77 milljarða króna er bilið sem þarf að brúa í hallalaus fjárlög orðið um 120 milljarðar króna.
Það er ríflega 8% af útgjöldum ríkissjóðs eða 2,5% af landsframleiðslu. Fjárhæð sem samsvarar rekstri Landspítalans í heilt ár.
„Eðlilega er mörgum spurningum ósvarað. Viðreisn, sem fer með stjórnartaumana í sjálfu fjármála- og efnahagsráðuneytinu, talaði nokkuð óljóst um hagræðingu í kosningabaráttunni. Nefnd var sameining stofnana, sem getur skilað hundruðum milljóna, jafnvel nokkrum milljörðum. Ljóst er að miklu, miklu meira þarf til. Sjálfur hjó ég eftir tvennu frá forma flokksins í kosningabaráttunni sem kom smá spánskt fyrir sjónir. Annars vegar að spara með því að greiða niður erlendar skuldir. Erlendar skuldir ríkissjóðs bera reyndar lægri vexti en þær innlendu og til þess að greiða þær niður án innlendrar skuldsetningar á móti þarf að bæta afkomuna með því að ná fram afgangi á ríkissjóði. Ef það er ekki markmiðið er beinlínis verið að leggja til að dregið verði úr gjaldeyrisforða Seðlabankans, sem erlend lán ríkisins fjármagna að talsverðu leyti. Slíkt væri aftur á móti til þess fallið að draga úr gengisstöðugleika sem gengur beint gegn grundvallarstefnu Viðreisnar.”
Konráð segir nýja ríkisstjórn standa frammi fyrir tveimur lykilspurningum: 1) Hefur ríkisstjórnin aga og kjark í að hætta verkefnum sem nema tugum milljarða króna? 2) Mun almenningur sýna ríkisstjórninni þolinmæði svo af því verði eða því að lítið verði úr metnaðarfullri stefnuyfirlýsingu?
„Svo það sé sagt verður mjög spennandi að sjá hvernig nýrri ríkisstjórn tekst til og þá sérstaklega við stjórn ríkisfjármálanna. Af framangreindu er ljóst að markið er sett hátt og mikið þarf til að jafnan gangi upp. Hér er að sjálfsögðu lítið nýtt á ferðinni að því leyti að stjórnarsáttmálar og stefnuyfirlýsingar innihalda oft stórar hugmyndir sem erfitt reynist að hrinda í framkvæmd,” skrifar Konráð.
Að lokum segir Konráð að pólitík sé list hins mögulega en það megi kannksi segi að pólitík sé frekar list hins ómögulega þegar tugi milljarða eða meira vantar upp á í ríkisfjármálunum?
„Það verður spennandi að sjá og ég vona að valkyrjunum og föruneyti þeirra takist vel til, það skiptir okkur öll gríðarlega miklu máli,” skrifar Konráð að lokum.