Heildsalinn Steindal ehf. hefur tekið við umboði af San Pellegrino af Ölgerðinni. Þetta er annað vörumerkið sem félagið tekur við af Ölgerðinni en Steindal varð umboðsaðili Red Bull í fyrra.

Steindal var stofnað árið 2019 og hefur á stuttum tíma náð að tryggja vinsæl vörumerki á borð við Töst og Happy Monkey.

Friðjón Örn Hólmbertsson, eigandi Steindal, segir í samtali við Viðskiptablaðið að það sé mikil viðurkenning fyrir félagið að hafa tryggt svona heimsþekkt vörumerki.

Vörumerkið San Pellegrino eigi sér 125 ára sögu en varan er unnin úr lindarvatni úr hlíðum Alpanna og inniheldur mikið af steinefnum og lágt pH-gildi. Vatnið er líka þekkt fyrir náttúrulega mjúka kolsýru og er talið henta vel með mat.

„San Pellegrino er eitt þekktasta vörumerkið í sínum flokki, eins og ferðaglaðir Íslendingar hafa fengið að kynnast þá er varla hægt að fara út að borða í stærstu borgum heims án þess að sjá vörumerkið á boðstólum,“ segir Friðjón.

Hann segist sjá mikil tækifæri með vörumerkið og hefur þegar fundið fyrir mikilli eftirvæntingu meðal veitingamanna.

„Allar matvörukeðjur landsins hafa tekið okkur vel þegar við ræðum um San Pellegrino og við sjáum nú þegar að varan muni fá góða dreifingu.“

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Steindal haslað sér völl á íslenskum markaði en fyrirtækið fékk meðal annars viðurkenningu frá Keldunni sem fyrirmyndarfyrirtæki. Friðjón bætir við að starfsfólk félagsins hafi mikla ástríðu fyrir vinnu sinni og sé spennt fyrir nýjum tækifærum.

„Á næstu dögum erum við svo að fara að setja á markað Happy Monkey milk shakes en það er súkkulaðidrykkur fyrir börn. Happy Monkey framleiðir einnig ávaxtasafa en sá drykkur hefur slegið í gegn og seldum við 800.000 fernur af þeim drykk árið 2024. Við bindum líka miklar vonir við Red Bull 2025 því nýungar frá þeim hafa aldrei verið fleiri en í ár.“