Landsréttur hefur sýknað Steinþór Gunnarsson í svokallaða Ímon-málinu, tíu árum eftir að hafa fengið níu mánaða dóm í Hæstarétti. Vísir greinir frá málinu en dómurinn var kveðinn upp klukkan tvö í dag og hefur ekki verið birtur á vef dómstólsins.

Steinþór var sakfelldur bæði í héraði og í Hæstarétti fyrir markaðsmisnotkun í starfi sínu sem forstöðumaður verðbréfamiðlunar Landsbankans í fjármálakrísunni 2008. Var honum gefið að sök að hafa kynnt kaup Ímons á hlutabréfum í bankanum sem raunveruleg viðskipti en að mati ákværuvaldsins var aðeins um sýndarviðskipti að ræða.

Dómurinn var hluti af ákæru ríkissaksóknara árið 2014 um allsherjarmarkaðsmisnotkun á hendur Landsbankamönnum. Héraðsdómur dæmdi Steindór til níu mánaða óskilorðsbundinnar fangelsisvistar árið 2014 en hann áfrýjaði til Hæstaréttar, sem staðfesti árið 2015 dóm héraðsdóms en ákvað að sex mánuðir af níu yrðu skilorðsbundnir.

Sakborningar í málinu voru, auk Steinþórs, Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri gamla Landsbankans, og Elín Sigfúsdóttir, sem var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans. Sigurjón og Elín voru sýknuð í héraði en sakfelld í Hæstarétti árið 2016 og dæmd til fangelsisvistar. Hæstiréttur tók málið aftur fyrir vegna vanhæfni dómara og mildaði refsinguna verulega árið 2021.

Málið snerist um níu milljarða króna lánveitingu til félaganna Ímon og Azalea Resources Ltd. í tengslum við kaup fyrrum stjórnenda á hlutabréfum í bankanum. Ímon hafði verið í eigu Magnúsar Ármanns en Azalea Resources var skráð á bresku Jómfrúareyjunum og í eigu finnska fjárfestisins Ari Almivuori, viðskiptafélaga Björgólfs Thors Björgólfssonar.