Bandaríski bílaframleiðandinn Stellantis, sem framleiðir meðal annars Jeep-jeppana, hefur skipað Antonio Filosa sem forstjóra fyrirtækisins. Á vef WSJ segir að Filosa hafi starfað hjá fyrirtækinu í 25 ár og var síðast gæðastjóri og framkvæmdastjóri rekstrar í Ameríku.

Hann tekur við stöðunni þann 23. júní nk. en félagið segir að reynsla hans í bílaiðnaðinum og þekking hans á fyrirtækinu muni koma að góðum notum í krefjandi markaðsumhverfi.

Stellantis hefur glímt við ýmsa erfiðleika undanfarið en afhendingar í Norður-Ameríku lækkuðu til að mynda um 20% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Markaðir í Evrópu og Asíu sáu einnig töluverðan samdrátt.

Tollastríð Donalds Trumps hafa einnig haft áhrif á horfur fyrirtækisins og urðu til þess að Stellantis frestaði hagspá sinni fyrir árið í síðasta mánuði.