Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir í samtali við Viðskiptablaðið að minnisblað um fjárstuðning foreldra við íbúðakaup barna sinna hafi einungis verið til upplýsinga. Ekki standi til að skattleggja fjárstuðninginn með sérstökum hætti.
„Þetta var greining. Skatturinn er með öll lög til að gera það sem þau vilja gera. Það liggur í hlutarins eðli að það er mjög flókin sönnunarbyrði í þessu og þetta hefur ekki verið gert og stendur ekki til,“ segir Sigurður Ingi spurður um skattlagningu á þennan fjárstuðning.
Í minnisblaðinu er tekið fram að fjárstuðningur foreldra hafi verið að aukast og almennt séð „fær ríkissjóður ekki miklar skatttekjur af þessum gjörningum.”
Þá er einnig tekið fram í minnisblaðinu að fyrir fram greiddur arfur sæti 10% skatti en ef „um er að ræða gjöf til barna þá ætti sú ráðstöfun að leiða til skattlagningar í launaskatthlutfalli (31,5-46,3%). Hins vegar eru fá dæmi um að ráðstöfun til barna hafi sætt skattlagningu sem gjöf og spilar þar inn í að strangar sönnunarkröfur hafa verið lagðar á skattyfirvöld til að sýna fram á að um gjöf sé að ræða (en ekki lán).”
„Það er verið að greina stöðuna og þetta er hluti af raunverulegum staðreyndum að stuðningur við kaup yngra fólks, fyrstu kaupenda, hefur verið að vaxa í meira mæli en áður,“ segir Sigurður Ingi.
Spurður um hvort það sé áhyggjuefni að stuðningurinn sé að aukast, segir hann fyrst og fremst verið að segja frá þeirri staðreynd.
„Áhyggjuefnið er að fólk hefur mismunandi bakland og það eru ekki allir í sömu færum til að geta fengið slíkan stuðning. Ef menn ætla að finna leiðir til að styðja við ungt fólk inn á húsnæðismarkað þarf að greina stöðuna til að vita hvaða leið þeir ætla að fara,“ segir Sigurður.
Skattatillaga AGS til skoðunar
Hann bendir á að eina skattlagningin sem er til skoðunar samkvæmt minnisblaðinu tengist tillögu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
„Þar er rætt um að skattlagning á leigutekjur og eign fólks í öðru heimili sé með lægra móti á Íslandi en í öðrum löndum. Afleiðingin gæti verið sú að það sé minna framboð af húsnæði fyrir fólk sem vill kaupa og þess vegna er eðlilegt að það sé skoðað,“ segir Sigurður.
„Þetta er hluti af því að greina af hverju er ekki meira framboð af íbúðum til eignar á húsnæði. Ein af ástæðunum getur verið skattlagning á þessu og sú staðreynd að það eru í vaxandi mæli fjársterkir aðilar sem kaupa eignir.“
Skattaafsláttur til fyrstu kaupenda verðbólguvaldandi
Spurður um af hverju sé ekki fremur horft á skattalækkunarhliðina fyrir fyrstu kaupendur, t.d. með því að afnema stimpilgjöld, segir Sigurður það ganga gegn aðalmarkmiðum ríkisstjórnarinnar að ná niður verðbólgu.
„Það var gefinn 50% afsláttur [af stimpilgjöldum] fyrir fyrstu kaupendur til að styðja þann hóp. Svo megum við ekki gleyma því að aðalmarkmið stjórnvalda er að ná verðbólgu niður og það hefur verið mat allra hagfræðinga, bæði Seðlabankans og annarra, að það að gefa eftir slíka fjármuni eins og stimpilgjöld myndu auka þenslu í samfélaginu.“
Spurður um hvort það sé mat hagfræðinga hvort eftirgjöf á stimpilgjöldum til fyrstu kaupenda myndi valda þenslu vildi hann ekki ganga svo langt að fullyrða það.