Notkun norskra meðalverða sem grunns við útreikning íslenskra veiðigjalda á uppsjávarfiski er óforsvaranleg og leiðir til skekkju í álagningu, að mati norsku lögmannsstofunnar Wikborg Rein, sem vann nýlega ítarlega greiningu fyrir Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS).

Þar kemur fram að íslenskur og norskur uppsjávarmarkaður séu svo frábrugðnir að ekki sé unnt að beita norskum verði sem viðmiði á Íslandi – hvorki samkvæmt hagfræðilegum forsendum né alþjóðlegum skattalögum.

Rótgróinn kerfislegur munur á milli markaða

Í greiningunni kemur fram að í Noregi fari meginþorri fyrstu sölu á uppsjávarfiski fram á opinberum uppboðum, þar sem verðmyndun á sér stað í samkeppni milli óháðra aðila. Íslenskur markaður, hins vegar, byggi á lóðréttri samþættingu virðiskeðjunnar, þar sem sami aðili stundar bæði veiðar, vinnslu og sölu. Viðskipti fara að mestu fram innan samþættra félaga eða samkvæmt fyrir fram gerðum samningum – sem leiðir jafnan til lægri verðs en á opinberum uppboðum.

Þetta þýðir að með því að miða veiðigjöld við norskt meðalverð sé verið að skattleggja íslenskar útgerðir út frá verði sem þær fá ekki í raun og veru.

„Slíkt gengur þvert gegn grundvallarreglum skattlagningar og jafnræðis,“ segir í greiningunni.

Brýtur í bága við leiðbeiningar OECD

Greiningin vísar sérstaklega til leiðbeininga OECD um milliverðlagningu þar sem lagt er upp úr því að skattlagning milli tengdra félaga byggi á samanburði við sambærileg óháð viðskipti (e. Comparable Uncontrolled Price, CUP).

Þær leggja áherslu á að slíkur samanburður verði að taka tillit til raunverulegra aðstæðna í hverju tilviki fyrir sig.

Að mati Wikborg Rein stenst sú aðferð að styðjast við norsk meðalverð ekki þessar leiðbeiningar, þar sem verðið endurspegli hvorki tíma, stað, gæði né aðstæður á íslenskum markaði.

Með öðrum orðum: meðalverð í Noregi er ekki sambærilegt við verð sem íslenskar útgerðir fá raunverulega.

Áhætta vegna rangrar skráningar og gengissveiflna

Á það er bent að norskt markaðskerfi byggist enn að verulegu leyti á handvirkri skráningu og sjálfsmati, þar sem áhætta á van- eða misvísandi skráningu sé mikil. Framleiðendur, kaupendur og útgerðir í Noregi skrá afla sjálfir og viðurkennd sjálfvirk vigtun er ekki orðin almenn regla. Því sé óvissa í kringum gögnin sem notast er við og því ekki hægt að treysta því að þau séu nákvæm eða sambærileg.

Þá er sérstaklega bent á að breytingar stjórnvalda bæti við óvissu með því að nota föst ársgengi til að breyta norskum krónum í íslenskar, sem gæti valdið skekkju í veiðigjaldinu eftir sveiflur á gjaldeyrismarkaði.

Mikilvægur efnahagslegur mismunur

Í greiningunni er jafnframt rakið að rekstrarumhverfi í Noregi sé erfitt og afkoma vinnslufyrirtækja veik, meðal annars vegna hárra launakostnaðar og sveiflna í hráefnisframboði.

Þá er lóðrétt samþætting lögum samkvæmt takmörkuð eða útilokuð í norska kerfinu, sem dregur úr hagræðingu og veldur ólíkri verðmyndun.

Greining Wikborg Rein leiðir í ljós að marktækur og lögmætur samanburður á milli markaða standist ekki. Því sé bæði óskynsamlegt og rangt að nýta norskt meðalverð til að ákvarða veiðigjöld á Íslandi.

„Með því að beita föstu viðmiði sem byggir á allt öðrum markaðsskilyrðum er verið að fara gegn skattarétti, alþjóðlegum reglum og heilbrigðri skynsemi,“ segir í niðurstöðu greiningarinnar. „Það er rangt að láta íslenskar útgerðir greiða gjöld út frá verði sem enginn hér fær í reynd.“