Bandaríska sjónvarpsstöðin CBS hefur ákveðið að hætta með þættina The Late Show With Stephen Colbert. Á vef WSJ segir að CBS muni hætta með þættina í maí á næsta ári þegar samningur Colberts rennur út.
Stephen Colbert tilkynnti fréttirnar fyrir áhorfendum sem voru viðstaddir upptökur þáttarins í gær og birti síðan skilaboð um ákvörðunina á samfélagsmiðlum.
CBS segir að ákvörðunin tengist ekki frammistöðu þáttarins með neinum hætti, efni hans eða öðrum málum sem tengjast móðurfélagi CBS, Paramount Global. Sjónvarpsstöðin segir að um sé að ræða einfalda fjárhagslega ákvörðun.
Paramount er um þessar mundir að reyna að ljúka samruna sínum við Skydance Media en sá samruni er enn háður samþykki frá bandaríska samkeppniseftirlitinu.
Colbert hefur reglulega gagnrýnt Donald Trump og hefur einnig verið duglegur að gera grín að sjónvarpsstöðinni sinni og móðurfyrirtæki hennar í gegnum árin. Þáttarstjórnandinn gagnrýndi einnig Paramount í vikunni fyrir að samþykkja 16 milljóna dala sáttargreiðslu til forsetans vegna viðtals Kömulu Harris í þætti 60 Minutes.