Samkvæmt ársuppgjöri augnlyfjafyrirtækisins Oculis er félagið fullfjármagnað til ársins 2028 ásamt því að hafa náð verulegum áföngum í lyfjaþróun á árinu.
Undirbúningsaðgerðir svo Oculis sé í stakk búið að sækja um markaðsleyfi hjá Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna (e. NDA submission readiness) fyrir meðferð sjúklinga eftir augnaðgerðir eru á áætlun en umsókn verður lögð fram á ársfjórðungi í ár.
Fyrirtækið er nú á því stigi að vinna að undirbúningi umsóknar um markaðsleyfi fyrir OCS-01, lyf sem ætlað er til meðferðar við sjónhimnubjúg í sykursýki. Fyrstu niðurstöður úr fasa 3 DIAMOND-prófunum eru væntanlegar á fyrri hluta árs 2026.
Um er að ræða augndropa til meðferðar við bólgu og verkjum eftir augnaðgerðir en droparnir eru sagðir byltingarkenndir og er Oculis með einkaleyfi á framleiðslu þeirra til ársins 2040.
OCS-05, tilraunalyf við sjóntaugabólgu, hefur sýnt fram á taugaverndandi áhrif í fasa 2 ACUITY-rannsókninni.
Fyrirtækið hyggst ræða næstu skref með FDA á síðari hluta ársins 2025, sem gæti leitt til umsóknar um markaðsleyfi.
Einnig hefur OCS-02, nákvæmnislyf við augnþurrki, fengið jákvæðar niðurstöður og eru samskipti við FDA áfram í gangi.
„Við náðum gríðarlegum árangri árið 2024 og sterkri byrjun á árinu 2025. Við skiluðum tveimur jákvæðum niðurstöðum, annars vegar í fasa 2 ACUITY rannsókninni á Privosegtor (OCS-05) til meðferðar á sjóntaugabólgu, þar sem fram komu taugaverndandi áhrif, og hins vegar í RELIEF rannsókninni á Licaminlimab (OCS-02) til meðferðar á augnþurrki með nákvæmnislyfjanálgun. Í samræmi við áætlanir komum við einnig til með að ljúka skráningu þátttakenda í báðar fasa 3 DIAMOND rannsóknirnar á OCS-01 til meðferðar á sjónhimnubjúg í sykursýki á næstu mánuðum,” segir Riad Sherif, M.D., framkvæmdastjóri Oculis.
Fjárhagsstaðan tryggir framhaldið
Handbært fé Oculis nam 109 milljónum bandaríkjadala í lok árs 2024 ásamt u.þ.b. 93 milljóna dala nettó afrakstri hlutafjáraukningasem fram fór nýlega, tryggir fjármögnun félagsins fram yfir ársbyrjun 2028.
Samsvarar það um rúmum 27 milljörðum íslenskra króna.
Kostnaður vegna rannsókna og þróunar hélt áfram að vaxa og náði 59,1 milljón dala á árinu 2024, samanborið við 32,6 milljónir dala árið 2023. Aukningin stafaði af kostnaði við klínískar prófanir, sem eru lykilatriði í vegferð Oculis.
Hins vegar nam nettótap 97,4 milljónum dala á árinu 2024, þrátt fyrir styrkari fjárhagsstöðu, vegna hærri kostnaðar við rannsóknir og aðlögun á gengi áskriftarréttinda.
Fyrirtækið heldur rannsóknar- og þróunar kynningu í New York 15. apríl, þar sem stefna og nýjustu rannsóknarniðurstöður verða kynntar fyrir fjárfestum og markaðnum.
„Nýleg 100 milljóna USD hlutafjáraukning er einnig þýðingarmikill áfangi á þeirri vegferð Oculis að knýja áfram þróunarstarf félagsins. Við erum sem fyrr staðföst í þeirri sýn að vera leiðandi á sviði lækninga við augn- og augntaugasjúkdómum og að koma á markað nýjum meðferðum til að bjarga sjón sjúklinga. Árið 2025 verður ár þar sem við einbeitum okkur að framförum á lokastigum klínískra rannsókna. Við hlökkum til að kynna þau tækifæri sem felast í þróunarlyfjum Oculis á væntanlegum kynningardegi um rannsóknir og þróunarstarf félagsins,” segir Riad Sherif.