Vísitala raungengis íslensku krónunnar, á mælikvarða verðlags, þ.e. þegar gengi krónunnar hefur verið leiðrétt fyrir verðlagsbreytingum, hefur hækkað verulega á undanförnum misserum og nálgast nú svipuð gildi og í uppgangi ferðaþjónustunnar á árunum fyrir heimsfaraldur.

Samkvæmt bráðabirgðatölum Seðlabanka Íslands hækkaði vísitala raungengis um 1,05% milli febrúar og mars og nam 96,3 stigum í mars. Þetta er hæsta gildið frá ágúst 2018.

Meðaltal vísitölunnar frá árinu 1980 er 86,25 stig, og 84,16 stig frá aldamótum. Sé horft til raungengis frá 1980 hefur það aðeins fjórum sinnum verið hærra en nú – á tímabilunum 2017-18, 2005-07, 1987-89 og 1980-81.

Konráð S. Guðjónsson hagfræðingur segir ómögulegt að segja til um hvenær aðlögun raungengisins muni eiga sér stað.

„Kirkjugarðarnir eru fullir af mönnum sem spáðu vitlaust fyrir um gengi gjaldmiðla sagði einhver. Það er í sjálfu sér auðvelt að mynda sér skoðun á því hvort gengið sé sterkt eða veikt, horft til einhverra ára í senn. En að tímasetja hvenær breytingarnar verða, það er nánast ómögulegt,“ útskýrir Konráð.

„Þegar tölur um vöruskipti, fjárfestingar, utanríkisverslun og fleira er skoðað, þá kemur mér á óvart hve sterk krónan hefur haldist síðustu mánuði. Það hefur verið dregið úr framvirkri stöðu, viðskiptahallinn hefur verið að aukast og fjármagnsflæði ekki endilega að koma á móti. Á sama tíma hefur krónan ekki gefið eftir – þvert á móti hefur hún styrkst frá því síðasta haust. Það er hægt að týna eitthvað til eins og lítil gjaldeyriskaup lífeyrissjóða en heilt yfir finn ég ekki skýringar á þessu í fljótu bragði.“

Samkvæmt bráðabirgðatölum Seðlabanka Íslands hækkaði vísitala raungengis um 1,05% milli febrúar og mars og nam 96,3 stigum í mars.
© vb.is (vb.is)

Krónan verið sögulega stöðug 

Gengi krónunnar styrktist nær samfellt á fjórða ársfjórðungi síðasta árs, þróun sem m.a. mátti rekja til kaupa erlendra aðila á íslenskum ríkisskuldabréfum og yfirtöku JBT á Marel.

Hagspá Arion banka kom út í byrjun apríl. Þar spáir bankinn því að krónan haldist sterk fram á seinni hluta þessa árs, en taki þá að veikjast.

Lítið svigrúm sé til gengisstyrkingar miðað við spá bankans um undirliggjandi efnahagsþætti, utanríkisverslun og raungengi, þó að fjármagnsflæði og væntingar geti alltaf tímabundið fallið með krónunni.

Konráð bendir á að nafngengi krónunnar hafi varla breyst frá því í Covid.

„Það er sama hvaða gjaldmiðill það er, þeir sveiflast alltaf en krónan hefur aftur á móti haldist á ótrúlega þröngu bili. Í sögulegu samhengi er magnað hvað hún hefur verið stöðug.“

Hann segir að hvort sem það er verð á krónu eða einhverju öðru, ef tiltekin eign helst stöðug í verði í einhvern tíma þá skapi það eitt og sér stöðugleika og traust.

„Og það gefur til kynna að það verði ekki miklar sveiflur á genginu, það myndast jákvæður spírall. Ég held að þetta sé helsta ástæða þess að gengið hefur haldist svona stöðugt. Þar að auki hafa gjaldeyrisinngrip Seðlabankans virkað vel og öðlast trúverðugleika,“ bætir Konráð við.