Afkoma Eimskips á þriðja ársfjórðungi var sú sterkasta á árinu en samkvæmt nýbirtu uppgjöri félagsins má rekja afkomuna til góðs tekjuvaxtar
Tekjur Eimskips jukust um 18,6 milljónir evra frá fyrra ári og námu 220,6 milljónum evra á fjórðungnum, sem samsvarar um 33 milljörðum króna á gengi dagsins.
Tekjur félagsins af gámaflutningum lækkuðu þó um 2,7 milljónir evra á fjórðungnum á meðan tekjur af flutningsmiðlun jukust um 21,3 milljónir evra.
Hagnaður eftir skatta nam 14,3 milljónum evra samanborið við 16,6 milljónir evra fyrir sama tímabil árið 2023. Sé miðað við gengi dagsins hagnaðist Eimskip um 2,1 milljarð króna á fjórðungnum.
„Við erum ánægð með niðurstöðu þriðja ársfjórðungs en mikil umsvif einkenndu starfsemina á tímabilinu hjá flestum tekjustoðum félagsins. Afkoma fjórðungsins er sú besta á þessu ári og nam EBITDA 32,9 milljónum evra samanborið við 34,5 milljónir evra á sama tímabili í fyrra.
Gámaflutningskerfið skilaði góðri niðurstöðu í fjórðungnum með töluverðum magnvexti, sérstaklega í útflutningi frá Íslandi og í Trans-Atlantic-flutningum, en á sama tíma dróst innflutningur til Íslands lítillega saman. Aukinn útflutningur frá Íslandi skýrist af auknum fiskveiðum ásamt vexti í útflutningi á eldislaxi. Þá var mikið magn af úrgangi til endurvinnslu í útflutningi en sá farmur lækkar meðalframlegð lítillega,” segir Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips.
Kostnaður nam 187,7 milljónum evra sem var aukning um 20,2 milljónir evra en hækkunin litast af hækkun á flutningskostnaði greiddum til þriðja aðila sem jókst um 17,8 milljónir evra frá fyrra ári.
Olíukostnaður jókst lítillega eða um 0,2 milljónir evra á meðan nýlega innleiddur ETS-kostnaður nam 0,9 milljónum evra á fjórðungnum en sá kostnaður er veginn upp í gegnum tekjustýringu
Í uppgjörinu segir að góður vöxtur hafi verið í fjórðungnum á útflutningi frá Íslandi. Þá var afkoma Innanlandssviðsins á fjórðungnum vegna mikillar starfsemi einnig góð.
„Magn í Trans-Atlantic flutningum jókst á milli ára bæði vegna meiri eftirspurnar en eins vegna minni flutningsgetu alþjóðlega á siglingarleiðinni milli Evrópu og Norður-Ameríku. Alþjóðleg flutningsverð hækkuðu á fjórðungnum en voru samt sem áður lægri en á sama tímabili í fyrra. Bætt jafnvægi var á magni yfir hafið bæði á vestur- og austurleið sem hafði jákvæð áhrif á afkomuna. Í Noregi sáum við magnið í frystiflutningskerfinu aukast í báðar áttir og skilaði reksturinn fínni niðurstöðu,“ segir Vilhelm.
EBIT félagsins hélst stöðug frá fyrra ári og nam 18,7 milljónum evra og segist Vilhelm Már nokkuð bjartsýnn á rekstur félagsins það sem eftir lifir árs.
„Nýja kvótaárið á Íslandi byrjar vel sem og áframhaldandi góður gangur í magni frá laxeldi og þá er innflutningur til Íslands stöðugur. Á sama tíma hafa veiðar í Færeyjum verið í rólegri kantinum en við erum bjartsýn á að þær taki við sér á komandi vikum. Í flutningsmiðluninni gerum við ráð fyrir áframhaldandi sveiflum á alþjóðlegum flutningsverðum en við gerum ráð fyrir ágætu magni í núverandi fjórðungi.“