Af­koma Eim­skips á þriðja árs­fjórðungi var sú sterkasta á árinu en sam­kvæmt ný­birtu upp­gjöri félagsins má rekja af­komuna til góðs tekju­vaxtar

Tekjur Eim­skips jukust um 18,6 milljónir evra frá fyrra ári og námu 220,6 milljónum evra á fjórðungnum, sem sam­svarar um 33 milljörðum króna á gengi dagsins.

Tekjur félagsins af gáma­flutningum lækkuðu þó um 2,7 milljónir evra á fjórðungnum á meðan tekjur af flutnings­miðlun jukust um 21,3 milljónir evra.

Hagnaður eftir skatta nam 14,3 milljónum evra saman­borið við 16,6 milljónir evra fyrir sama tíma­bil árið 2023. Sé miðað við gengi dagsins hagnaðist Eimskip um 2,1 milljarð króna á fjórðungnum.

„Við erum ánægð með niður­stöðu þriðja árs­fjórðungs en mikil um­svif ein­kenndu starf­semina á tíma­bilinu hjá flestum tekju­stoðum félagsins. Af­koma fjórðungsins er sú besta á þessu ári og nam EBITDA 32,9 milljónum evra saman­borið við 34,5 milljónir evra á sama tíma­bili í fyrra.

Gáma­flutnings­kerfið skilaði góðri niður­stöðu í fjórðungnum með tölu­verðum magn­vexti, sér­stak­lega í út­flutningi frá Ís­landi og í Trans-At­lantic-flutningum, en á sama tíma dróst inn­flutningur til Ís­lands lítil­lega saman. Aukinn út­flutningur frá Ís­landi skýrist af auknum fisk­veiðum ásamt vexti í út­flutningi á eldis­laxi. Þá var mikið magn af úr­gangi til endur­vinnslu í út­flutningi en sá farmur lækkar meðal­fram­legð lítil­lega,” segir Vil­helm Már Þor­steins­son, for­stjóri Eim­skips.

Kostnaður nam 187,7 milljónum evra sem var aukning um 20,2 milljónir evra en hækkunin litast af hækkun á flutnings­kostnaði greiddum til þriðja aðila sem jókst um 17,8 milljónir evra frá fyrra ári.

Olíu­kostnaður jókst lítil­lega eða um 0,2 milljónir evra á meðan ný­lega inn­leiddur ETS-kostnaður nam 0,9 milljónum evra á fjórðungnum en sá kostnaður er veginn upp í gegnum tekju­stýringu

Í upp­gjörinu segir að góður vöxtur hafi verið í fjórðungnum á út­flutningi frá Ís­landi. Þá var af­koma Innan­lands­sviðsins á fjórðungnum vegna mikillar starf­semi einnig góð.

„Magn í Trans-At­lantic flutningum jókst á milli ára bæði vegna meiri eftir­spurnar en eins vegna minni flutnings­getu alþjóð­lega á siglingar­leiðinni milli Evrópu og Norður-Ameríku. Alþjóð­leg flutnings­verð hækkuðu á fjórðungnum en voru samt sem áður lægri en á sama tíma­bili í fyrra. Bætt jafn­vægi var á magni yfir hafið bæði á vestur- og austur­leið sem hafði jákvæð áhrif á af­komuna. Í Noregi sáum við magnið í frysti­flutnings­kerfinu aukast í báðar áttir og skilaði reksturinn fínni niður­stöðu,“ segir Vil­helm.

EBIT félagsins hélst stöðug frá fyrra ári og nam 18,7 milljónum evra og segist Vil­helm Már nokkuð bjartsýnn á rekstur félagsins það sem eftir lifir árs.

„Nýja kvótaárið á Ís­landi byrjar vel sem og áfram­haldandi góður gangur í magni frá lax­eldi og þá er inn­flutningur til Ís­lands stöðugur. Á sama tíma hafa veiðar í Færeyjum verið í ró­legri kantinum en við erum bjartsýn á að þær taki við sér á komandi vikum. Í flutnings­miðluninni gerum við ráð fyrir áfram­haldandi sveiflum á alþjóð­legum flutnings­verðum en við gerum ráð fyrir ágætu magni í núverandi fjórðungi.“