Í bréfi Sigurðar Þórðarsonar setts ríkisendurskoðanda til þingnefndar og héraðssaksóknara um málefni Lindarhvols segir að gögnin „gefi sterklega til kynna“ að samkomulag um sölu á eignarhluti ríkissjóðs í Klakka hafi verið komið á í upphafi árs 2016.
Mánuðum áður en hlutirnir voru auglýstir til sölu og jafnvel áður en Lindarhvoll ehf. var stofnað til að annast umsýslu og sölu stöðuleikaeigna sem ríkið fékk í hendurnar eftir samkomulag við kröfuhafa föllnu bankanna.
Styðst Sigurður við upplýsingar úr ársreikningum BLM fjárfestinga, sem keypti hlut ríkisins, til staðfestingar og samanburðar við gögn sem hann aflaði við endurskoðun á samningnum. Telur hann að samningur hafi verið gerður í byrjun árs 2016 sem ekki hefur verið greint frá opinberlega.
„Yfirtökuvirði stöðugleikaframlaga slitabúa Glitnis ehf. og Kaupþings ehf. í Klakka ehf. var samtals metið á 3.104 m. kr. Þær greiðsluhreyfingar og upplýsingar sem skjalfestar eru sýna að fyrri hluta árs 2016 hafi að öllum líkindum verið gerður samningur (sem ekki hefur verið birtur) sem fól í sér að virðismat við sölu stöðugleikaeigna myndi ákvarða skiptingu fjárhæða milli aðila. Þannig að hlutur ríkissjóðs yrði 2.490 m. kr. eða 80% og 614 m. kr. eða 20%, yrðu til ráðstöfunar fyrir BLM ehf,” segir í bréfinu.
Sigurður sendi embætti héraðssaksóknara og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis viðbótargögn í Lindarhvolsmálinu svokallaða í síðustu viku og krefst hann þess að sala á hlut ríkissjóðs í Klakka ehf., áður Exista, verði rannsakaður til hlítar.
Þessi frétt er hluti af lengri umfjöllun Viðskiptablaðsins um Lindarhvol sem áskrifendur geta nálgast hér.