Norræna lággjaldaflugfélagið Sterling Airlines mun fljúga til 11 nýrra áfangastaða frá Finnlandi, segir í frétt Reuters. Með þessu fer félagið í beina samkeppni við SAS og Finnair um flug frá Finnlandi til Evrópu.

Sterling hefur einnig gert samstarfssamning við danska flugfélagið Danish Air Transport (DAT).

Samningurinn felur í sér að mögulegt er að bóka innanlandsflug í Danmörku á vefsíðu Sterling. Einungis verður hægt að bóka flugfar á milli Kaupmannahafnar og Borgundarhólms til að byrja með. DAT mun þjónusta flugleiðina.

Sterling er í eigu eignarhaldsfélagsins Fons, sem er stjórnað af Pálma Haraldssyni og Jóhannesi Kristinssyni. Mærsk Air rann nýlega inn í Sterling. Fyrirtækið á í yfirtökuviðræðum við FL Group.