Steypustöðin hefur lokið við að sameina félögin Loftorku Borgarnesi og Hólaskarð undir nafninu Steypustöðin. Í kjölfarið mun félagið fá nýtt útlit sem ætlað er að endurspegla nýja sjálfbærnistefnu félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu.
„Þetta er lokahnykkurinn á sameiningarferli Steypustöðvarinnar og dótturfélaga þess sem hófst fyrir um tveimur árum. Við höfum nýtt þann tíma vel í að straumlínulaga starfsemina og þétta framboð félagsins á byggingarlausnum,“ Segir Björn Ingi Victorsson, forstjóri Steypustöðvarinnar, í tilkynningunni.
Björn segir mikil tækifæri fólgin í því að sameina starfsemi félagsins undir einn hatt. „Nýtt útlit og vörumerki endurspeglar fjölbreyttara framboð félagsins á byggingarlausnum og skarpari áherslur í þjónustu við byggingariðnaðinn og sameinar alla starfsmenn undir eitt sterkara vörumerki.
Við teljum mikil sóknartækifæri fólgin í því að sameina heildarstarfsemi félagsins undir eitt vörumerki Steypustöðvarinnar. Í þessu felst skilvirkara sölu og markaðsstarf og aukið hagræði í rekstri.“